Hækkun launa alþingismanna frestað um 6 mánuði

Í tilkynningu frá fjármála- og efnahagsráðuneytinu segir að  Alþingi hafi í lok marsmánuðar  samþykkt að fresta til 1.janúar 2021 hækkun á launum þjóðkjörinna fulltrúa og æðstu embættismanna ríkisins sem samkvæmt lögum skyldi taka gildi 1. júlí 2020.

Um var að ræða breytingartillögu fjármála- og efnahagsráðherra, til efnahags- og viðskiptanefndar við bandorm um aðgerðir til að mæta efnahagslegum áhrifum í kjölfar heimsfaraldurs kórónaveiru.

Í kjölfar þess að frestunin var samþykkt barst fjármála- og efnahagsráðuneytinu erindi frá embætti forseta Íslands þar sem þess var óskað að launahækkun forseta yrði einnig frestað til næstu áramóta.

Samkvæmt lögunum hefðu laun þessara hópa átt að hækka 1. júlí í fyrra en Alþingi samþykkti að fresta því um 6 mánuði í tengslum við gerð lífskjarasamninga. Tók sú hækkun því gildi 1. janúar 2020, skv. lögboðnum fyrirmælum í takt við launavísitölu ársins 2018, sem segir til um um 6,3% hækkun. Laun þjóðkjörinna fulltrúa og æðstu embættismanna höfðu ekki verið hækkuð síðan í október 2016.

Þá segir í tilkynningunni að „Því miður urðu á mistök við hefðbundna launaafgreiðslu í janúar sem leiddu til þess að breytingin kom ekki til framkvæmda þá eins og lögin mæla fyrir um. Úr þessu verður bætt við launakeyrslu um næstu mánaðamót.“

Laun þjóðkjörinna fulltrúa, ráðherra og ráðuneytisstjóra eru eftirfarandi

Fjárhæð frá 2016

Fjárhæð frá 1. janúar 2020

Forseti Íslands

2.985.000

3.173.055

Þingfararkaup

1.101.194

1.170.569

Forsætisráðherra

2.021.825

2.149.200

Ráðherrar

1.826.273

1.941.328

Ráðuneytisstjóri forsætisráðuneytis

1.817.693

1.932.203

Ráðuneytisstjórar

1.725.480

1.834.181

DEILA