Fugl, refur og steinbítur í Hornvík

Þrisvar á ári stendur Náttúrufræðistofnun Íslands fyrir vettvangsferðum í friðlandið á Hornströndum til að fylgjast með viðkomu refa og kanna ástand lífríkis. Slík ferð var farin dagana 15.–25. mars s.l.

Ekki var að sjá að bjargfugl væri kominn að landi í einhverjum mæli að fýl undanskildum. Þegar lægði einn daginn, birti til og hlánaði komu stórir hópar af ritu inn í Hornvík.
Þegar tók að hvessa á ný og snjóa daginn eftir voru þær farnar aftur. Á heimleið þann 25. mars sáust nokkrar langvíur á sjónum utan við Hælavíkurbjarg en þar eru oft hundruð, jafnvel þúsund fuglar á þessum árstíma. Þegar rýnt var með fjarsjá inn í skorur í bjarginu sáust þó nokkrir svartfuglar híma þar í skjóli fyrir rokinu.

Refir eru harðgerð dýr og virtist lífið ganga með besta móti hjá þeim flestum.
Snjókoma var flesta daga og því kafdjúpt fyrir lágfótur að vaða lausamjöllina. Þær létu það þó ekki trufla sig, gengu í fjörur og tíndu upp ferskan fiskinn, báru hann upp á sjávarkamb og grófu hér og hvar í snjónum.
Ein læða hafði fyrir því að draga um 40 cm langan steinbít upp á bjarg og sást til hennar efst í Miðdal þar sem hún svaf á fengnum. Eftir góðan lúr vaknaði hún, hristi af sér snjóinn og fékk sér vænan bita af fiskinum áður en hún hélt áfram lengra upp, nær bjargbrúninni.