Friður, sátt og sanngirni

Traust umgjörð fagfólks

Lífið á flestum heimilum landsins er með óvenjulegum brag um þessar mundir, raunar á það við um alla heimsbyggðina.  Hér á landi eigum við því láni að fagna að umsjón aðgerða til að sporna við stjórnlausri útbreiðslu Covid veirunnar hefur verið í höndum afburða fagfólks og það er vel.  Því er ekki að heilsa í öllum samfélögum. Haft er á orði að þessi faraldur sé ein mesta ógn sem heimurinn hefur staðið frammi fyrir frá stríðslokum, og margir eru uggandi um friðinn.

Verjum heimilin

Allt er úr skorðum gengið. Þúsundir landsmanna hafa verið settir í sóttkví, hafa smitast og/eða veikst og því miður nokkrir látist.  Af þessa völdum hefur gangverk samfélagsins stöðvast.  Þetta ástand snertir hverja fjölskyldu og hvert heimili í landinu.  Beinar áhyggjur af framvindu veikinnar eru eitt og til viðbótar kemur svo kvíði yfir því hvað við taki, hvernig megi rétta úr kútnum, tryggja framfærslu, standa skil á fjárhagslegum skuldbindingum.  Þótt efnahagshrunið á síðasta áratug hafi verið af ólíkum toga, þá taka sig upp hjá mörgum erfiðar minningar. Hvað sem á dynur, þá má það ekki gerast að nokkur fjölskylda missi húsnæði sitt eða flæmist á brott vegna þeirra aðstæðna sem nú hafa skapast.  Við í Samfylkingunni erum sérstaklega á varðbergi hvað þetta varðar.

Öryggisleysi og óvissa

Foreldrar og fjölskyldur á Íslandi eru skiljanlega uggandi.  Stjórnvöld hafa gripið til fyrstu ráðstafana sem beinast nær eingöngu að bráðaaðgerðum gagnvart atvinnulífinu; fyrirtækjum þar sem viðskipti eru nú engin.  Einstaklingar og fjölskyldur sem minnst bera úr býtum sitja á hakanum.  Þar þurfum við að búa okkur undir langtíma stuðning og víðtæk úrræði. Það var afleitt að ekki var gengið lengra varðandi stuðninginn við barnafjölskyldur í aðgerðaáætlun ríkisstjórnarinnar. Vilji Samfylkingarinnar var skýr,  að barnabætur yrðu festar í sessi aftur og gerðar að virkum stuðningi eins og raunin varð í kjölfar efnahaghrunsins.  Þetta samþykkti ríkisstjórnin hins vegar ekki, heldur féllst á lága eingreiðslu og það eru mikil vonbrigði. Þau úrræði sem kynnt hafa verið eru ekki næg við þessar aðstæður, það þarf meira til og við getum gert betur. Almenningur treystir því að stjórnvöld muni ekki bregðast og á Alþingi reynum við í stjórnarandstöðu að standa vaktina.

Staða öryrkja

Fjölmargir öryrkjar draga fram lífið undir fátæktarmörkum og búa við enn erfiðari aðstæður í þessum hremmingum en fyrr.  Auk heilsubrests, þá upplifa margir þrúgandi félagslega einangrun nú þegar umgengni meðal fólks er takmörkum háð.  Þótt rýmri fjárráð leysi ekki allan vanda, þá skapast við það auknir möguleikar til meiri lífsgæða.  Smánarleg eingreiðsla nú um mánaðarmótin er ekki svar við kallinu.

 

Fátækt meðal aldraðra

Ítrekað hefur verið krafist lágmarks lagfæringa á viðurværi þeirra eldri borgara sem sannanlega lifa undir framfærslumörkum. Félagsmálaráðherra hefur í nærri þrjú ár lofað umbótum fyrir þennan hóp.  Fram er komið frumvarp sem lýtur að því að styrkja framfærslu aldraðra einstaklinga sem eiga engin eða takmörkuð lífeyrisréttindi í almannatryggingum. Í þeim hópi eru m.a. eldri innflytjendur. Frumvarpið er hins vegar fast í nefnd og enginn áhugi af hálfu ríkisstjórnarinnar að afgreiða málið snarlega út.  Þetta þarf að gerast strax og við jafnaðarmenn styðjum það með oddi og egg.

Viðmót gagnvart námsfólki

Námsmenn hafa í mörg ár barist fyrir úrbótum á  úreltu og ófullnægjandi stuðnings- og lánafyrirkomulagi með vísan til uppbyggilegs stuðnings sem er að finna í nágrannalöndunum.  Nú bætist við þessi vandi þegar skólar loka. Þetta hefur alvarleg áhrif á námsframvindu, kosta tafir, aukin útgjöld og sumartekjur alls óvissar.  Því er útilokað annað en að námslánum yfirstandandi tímabils verði breytt í styrk og það styðjum við heilshugar í Samfylkingunni.

Stöndum saman

Fjárhagslegt umfang sem stjórnvöld hafa kynnt sem viðspyrnu við heimsfaraldri Covid-19 er vanmetið.  Sterkar vísbendingar eru um að bæði heimili og fyrirtæki þurfi öflugri stuðning yfir lengra tímabil.  Við tökumst á við það verkefni af bjartsýni og einbeitingu. Íslensk þjóðarbú stendur vel að vígi og þegnar landsins eru dugandi fólk.  Um síðir er mest um vert að öll þjóðin, samfélagið allt gangi heilt  og þroskaðra frá þessum erfiðleikum og að við verðum reiðubúin sem fyrr að ganga vonglöð til móts við bjarta framtíð.

Guðjón S. Brjánsson, alþm.

DEILA