Covid19: Gistinætur drógust saman um 53% í mars

Hagstofan hefur tekið saman upplýsingar um áhrifin af covid19 veirunni, sem þegar eru komin fram.

31% lakari nýting hótela

Eitt af því sem fram kemur er að verulegur samdráttur var í gistinóttum hótela í mars. Samkvæmt bráðabirgðatölum voru 181.000 gistinætur á hótelum í mars samanborið við 382.000 gistinætur í mars 2019. Rúmanýting var um 25,3% samanborið við 56,8% í sama mánuði í fyrra. Miklar breytingar áttu sér stað í ferðaþjónustu í marsmánuði og má ætla að rúmanýting og fjöldi gistinátta hafi verið hærri í fyrri hluta mánaðar en lægri í þeim síðari, segir á vef Hagstofunnar.

7,7% samdráttur í sjávarútvegi

Heildarverðmæti útfluttra sjávarafurða á fyrstu 15 vikum ársins, þ.e. fram að páskum nam 68,3 milljörðum króna og dróst saman um 7,7% miðað við sama tímabil í fyrra. Á föstu gengi dróst heildarverðmætið saman um 12,2% milli ára. Hér kemur umtalsverð lækkun gengis íslensku krónunnar frá áramótum dregið úr tekjutapi sjávarútvegsins.

Töluverðar sveiflur eru á milli vikna en þær sveiflur virðast enn sem komið er vera keimlíkar þróun síðustu tveggja ára að öðru leyti en því að samdrátturinn þetta árið er meiri.