Covid19 : 27 smitaðir og tveir sýna einkenni á Bergi

Hjúkrunarheimilið Berg í Bolungavík er í Hvíta húsinu. Mynd: Kristinn H. Gunnarsson.

Alls eru 27 Vestfirðingar smitaðir af covid19 veirunni samkvæmt upplýsingum lögreglunnar á Vestfjörðum í kvöld. Fjórtán eru frá Ísafjarðarbæ og þrettán eiga lögheimili í Bolungavík.

Eins og fram hefur komið er einn vistmaður á hjúkrunarheimilinu Bergi í Bolungavík smitaður. Í stöðuskýrslu aðgerðarstjórnar kemur fram að  tveir einstaklingar þar til viðbótar munu vera veikir og sýna einkenni covid-19.

Sjötíu sýni bíða greiningar og eru þau öll nema eitt frá byggðarlögunum við utanvert Djúpi. Þetta eina er skráð á Vesturbyggð.  Í sóttkví eru 317, þar af eru 202 í Bolungavík. Lætur nærri að fjórðungar Bolvíkinga sé kominn í sóttkví eða smitaður. Að auki eru 40 sýni frá Bolungavík sem hafa verið tekin en ekki er búið að greina þau.

 

DEILA