Covid: tvö ný smit í Bolungavík í gær

Í gær var tilkynnt um tvö ný smit á Vestfjörðum. Bæði voru þau í Bolungavík.

Alls hafa nú verið greind 77 smit í öllu umdæminu. Átta einstaklingar hafa náð bata og eru því virk smit 67, öll staðsett á norðanverðum Vestfjörðum. Mikill fjöldi lauk sóttkví í gær, flestir í Bolungarvík. Alls eru nú 151 einstaklingur í sóttkví í umdæminu og 67 í einangrun.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá lögreglunni á Vestfjörðum.

Alls hafa verið tekin 489 sýni til rannsóknar í umdæminu, 229 á Ísafirði, 209 í Bolungarvík (rúmlega 20% m.v. íbúðafjölda), 32 á sunnanverðum Vestfjörðum, 11 í Súðavík, 3 Hólmavík/Strandir og 5 á Reykhólum. Alls voru 56 sýni tekin í gær sem biðu niðurstöðu.

Í gær og fram til föstudags verður skimun meðal íbúa á norðanverðum Vestfjörðum fyrir Covid-19, um er að ræða samvinnuverkefni HVEST Íslenskrar erfðagreiningar. Áætlað er að taka um 1200 – 1500 sýni.

Sýnin eru tekin við Björgunarsveitarhúsið í Bolungarvík og á Ísafirði í Kampaskemmunni, Crossfitstöðinni, skoðunarstöð Frumherja og við kjallara sjúkrahússins í Ísafirði. Verkefnið er unnið af starfsfólki Hvest ásamt sjálfboðaliðum. Gylfi Ólafsson, forstjóri Heilbrigðisstofnunar Vestfjarða segir að margir sjálfboðaliðanna séu kennarar og sýni þeir að þeim er margt til lista lagt.

Athugasemdir

athugasemdir