Bolungavík: vilja flýta framkvæmdum vegna covid 19

Bæjarráð Bolungavíkur lýsir yfir áhyggjum yfir þeim áskorunum sem sveitarfélagið stendur frammi fyrir vegna neikvæðra efnahagsáhrifa af Covid-19 veirufaraldrinum. Bæjarráð leggur fram eftirfarandi mótvægisaðgerðir til að vinna gegn þessum áhrifum með öflugum og afgerandi hætti:

Þjónusta og gjöld sveitarfélagsins

 

  • Innheimta fasteignagjalda verður með hefðbundnum hætti, en hægt er að sækja um að fresta tveimur gjalddögum sem koma til greiðslu innan ársins. Fjármálastjóra er falið að útbúa eyðublað vegna þessa úrræðis og setja á heimasíðu bæjarins.
  • Þar sem Íþróttamiðstöðin Árbær mun verða lokuð í óákveðinn tíma, þá er eðlilegt að tímalengd áskrifta að aðgangskortum sem nú er í gildi framlengist sem lokun nemur.
  • Þar sem COVID-19 hefur valdið samfelldri röskun á þjónustu stofnana sveitarfélagsins, svo sem hjá leikskóla, grunnskóla, skóladagheimili og mötuneyti, og fleira þess háttar, þá er bæjarstjóra falið að endurskoða innheimtu með tilliti til notkunar og/eða skerðingar þjónustunnar.

    Ofangreindar ákvarðanir eru  tímabundnar  og  gilda  til  loka  maí.  Endurskoðun  fari  fram  að  teknu  tilliti  til aðstæðna og verði fyrirkomulagið auglýst að nýju eigi síðar en 15. maí n.k.

Verkefni til að vinna gegn kólnun efnahagslífs

 

  • Allra leiða verði leitað til að flýta þeim framkvæmdum sem fyrirhugaðar eru í 5 ára framkvæmdaáætlun sveitarfélagsins og hægt er að hefja framkvæmdir strax á þessu ári. Með það að markmiði felur bæjarráð bæjarstjóra að leggja minnisblað fyrir bæjarráð þar sem endurskoðuð framkvæmdaáætlun sveitarfélagsins er lögð fram.
  • Hafin verði vinna við að stofna fasteignafélag á vegum Bolungarvíkurkaupstaðar með það að markmiði að nýta fyrirliggjandi fasteignir í eigu sveitarfélagsins til að útbúa allt að 20 nýjar íbúðir í Bolungarvík á næstu 3-5 árum. Heildar umfang þessa fasteignaverkefnis er allt að 500 m.kr.

Hefja vinnu við að stofna þróunarfélag um uppbyggingu þjónustu fyrir ferðamenn á Bolafjalli og í Ósvör. Óska eftir stuðningi frá Sóknaráætlun Vestfjarða til að koma að þróunarfélaginu sem hefur það að markmiði að laða að fjárfesta til að hefja uppbyggingu  á Bolafjalli og í Ósvör á næstu 3-5 árum.

DEILA