Bolungavík: stöðuskýrsla vegna covid19

Jón Páll Hreinsson, bæjarstjóri lagði fyrir bæjarráð í fyrradag fyrstu stöðuskýrslu vegna covid19. Þar er leitast við að gefa greinargott yfirlit yfir ástandið og þjónustuna í bænum. Í skýrslunni kemur eftirfarandi meðal annars fram:

Samkomubann

Samkomubann er í gildi frá og með 2.apríl til 4. maí 2020 en lengd þess verður endurskoðuð ef þurfa þykir. Samkomubann er miðað við 5 manns en það á þó ekki við um fjölskyldur sem búa á sama heimili. Fjöldi viðskiptavina í stærri verslunum, yfir 150 fermetrum, er að hámarki 30 á hverjum tíma.

Póstþjónusta

Starfsmenn sem hafa sinnt útburði pósts eru í sóttkví og er nú leitað starfsmanna sem geta gengið í störf bréfbera.

Hafnarvog

Tveir starfsmenn skiptast á vöktum og einn starfsmaður er alveg heima að læknisráði þar sem hann er í áhættuhóp.

Íþróttamiðstöðin Árbær

Íþróttamiðstöðinni var lokað 24. mars 2020. Tveir starfsmenn ásamt forstöðumanni eru ekki í sóttkví en makar þeirra allra eru í sóttkví. Starfsmenn vinna að viðhaldi eins og kostur er á meðan Íþróttamiðstöðin er lokuð.

Þjónustumiðstöð

Þjónustumiðstöð er eingöngu opin fyrir póstþjónustu og hefur verið opin á hefðbundnum tíma með fjöldatakmörkun og skiptingu milli starfsmanna síðan 19. mars 2020. Opið er fyrir síma á hefðbundnum tíma.

Heimaþjónusta

Heimaþjónusta liggur niðri nema í gegnum síma.

Grunnskóli

Kennsla í skólanum féll niður 2. og 3. apríl 2020 en kennt var í fjarkennslu og núna er skólinn kominn í páskafrí. Einn starfsmaður skólans hefur verið greindur með smit og þrjú börn og líklegt er að fleiri börn séu smituð. Fyrsti dagur eftir páskafrí verður nýttur í starfsdag. Líklegt er að starfssemi skólans verði skert enn frekar á meðan samkomubann stendur yfir til 4. maí. Skólastjóri og aðstoðarskólastjóri eru báðir í sóttkví.

Leikskóli

Tólf starfsmenn eru í sóttkví eða með einhvern á heimilinu í sóttkví. Átta starfsmenn eru ekki með neinn í sóttkví í kringum sig. Ekkert smit hefur greinst hjá starfsmönnum eða börnum en mörg barnanna eru í sóttkví þar sem þeir eru svo ungir að ekki er hægt að halda þeim frá öðrum fjölskyldumeðlimum sem eru í sóttkví. Leikskólinn verður væntanlega lokaður nema fyrir börn forráðamanna á forgangslista fram til 4. maí nema annað verði ákveðið. Alls mega 10-15 börn vera í leikskólanum í einu.