Bjarni Jónsson: hörð gagnrýni á áhættumat Hafró

Bjarni Jónsson, fiskifræðingur og varaþingmaður Vinstri grænna í Norðvesturkjördæmi  gagnrýnir áhættumat Hafrannsóknarstofnunar harðlega og tekur ekki afstöðu til þess. Bjarni er fiskifræðingur frá háskólanum í Oregon í Bandaríkjunum og starfaði m.a. sem forstöðumaður Norðurlandsdeildar Veiðimálastofnunar og er nú forstöðumaður Náttúrustofu Norðurlands vestra. Hannsitur sem fulltrúi Umhverfisráðherra í samráðsnefnd um fiskeldi og stendur að áliti nefndarinnar sem skýrt var frá á bb.is fyrr í dag.

Ófullnægjandi áhættumat, mögulega pólitískt

Bjarni skilaði sérstakri bókun til þess að skýra afstöðu sína og þar sem hann um áhættumat Hafrannsóknarstofnunar :

„Að mati undirritaðs sem vísindamanns á sviði erfðavísinda, þróunarvistfræði og fiskifræði, er fyrirliggjandi áhættumat ófullnægjandi, niðurstaðan öðru sinni mögulega pólitísk, en með ólíkum hætti, fremur en vísindaleg og því ekki tekin afstaða til hennar.“

Bjarni segir í bókun sinni að áhættumatið sé byggt á veikum vísindalegum grunni  og að breytingar á stuðlum sem leiða til annarrar niðurstöðu en var í fyrra áhættumati séu ekki frekar en þá „rökstuddir með trúverðugum hætti, byggt á traustum margþættum gögnum þar sem tekið er tillit til séríslenskra aðstæðna.“

Bjarni bætir því við að takmörkuð þekking hafi bæst við á þeim tveimur árum sem liðin eru frá síðasta áhættumati , „enda virðist það áhættumat sem nú liggur fyrir að mestu byggja á vísindalegum heimildum erlendis frá og gögnum sem þegar voru til staðar þegar fyrra mat var gert.“

Klykkir hann út með því að segja að það sé ekki trúverðugt „að nánast sami vísindalegi grunnur og aðferðafræðin sem beitt er, skuli á tveimur árum geta leitt til svo ólíkrar niðurstöðu.“

Þetta er harður dómur yfir áhættumati Hafrannsóknarstofnunar frá vísindamanni á þessu sviði.

Nýju lögin gagnrýnd

Þá eru athyglisverð ummæli Bjarna Jónssonar um nýsett lagaákvæði sem lögfestu áhættumat Hafrannsóknarstofnunar. Þau eru gagnrýnt fyrir það að Hafrannsóknastofnun er falið fullnaðarvald til stjórnsýslulegra ákvarðana um staðsetningu og umfang sjókvíaeldis við Ísland. Bjarni bendir á að Hafrannsóknarstofnun sé allt í kringum borðið:

„Varðandi hlutverk Hafrannsóknastofnunar í ferlinu er það svo nú að stofnunin hefur öll hlutverk við borðið, fer með nánast allar rannsóknir, gerð vöktunaráætlanna, framkvæmd vöktunarverkefna, greiningu niðurstaðna og fullnaðarvald til stjórnsýslulegra ákvarðana. Þá hefur stofnunin á sama tíma stórkostlegra fjárhagslegra hagsmuna að gæta sem hún fylgir eftir, af verkefnum sem af fiskeldinu leiðir og sömuleiðis þjónusturannsóknum í laxveiðiám á Íslandi. Núverandi staða samræmist ekki góðum stjórnsýsluháttum og grefur undan trúverðugleika þess faglega ferlis sem þarf að vera til staðar við vandaða ákvarðanatöku.“

Óháðir vísindamenn í stað Hafró

Bjarni segir stöðu Hafrannsóknastofnunar  gagnvart ákvörðunum um laxeldi við Ísland  fordæmalausa og leggur til breytingar:

„Hér þarf ráðherra, ef ekki löggjafinn einnig að grípa til ráðstafana til að tryggja faglegt ferli ákvarðanatöku í samræmi við ríkjandi hefð um góða stjórnsýsluhætti í landinu. Ein leið til þess er að fela öðrum sjálfstæðum og hæfum rannsóknastofnunum og vísindamönnum í landinu, ekki síst á svæðum sem málin varða sérstaklega, stærra hlutverk í rannsóknum og vöktunarverkefnum sem bindandi tillögur Hafrannsóknastofnunar byggja á.“

DEILA