Aukið frelsi við strandveiðar

Fiskistofa opnar fyrir strandveiðiumsóknir í Ugga kl. 8 á mánudaginn 27. apríl.

Fyrsti dagur strandveiða verður mánudaginn 4. maí.

Kristján Þór Júlíusson, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, hefur undirritað reglugerð um strandveiðar árið 2020.
Reglugerðin er efnislega samhljóða reglugerð um strandveiðar síðasta árs að öðru leyti en því að lagaheimild ráðherra til að banna strandveiðar á almennum frídögum er ekki nýtt í þessari reglugerð.

Því verður á þessari vertíð strandveiða ekki bannað að stunda veiðar á almennum frídögum.

Nokkrar orðalagsbreytingar eru gerðar frá reglugerð síðasta árs til að auka skýrleika, en reglugerðin byggir á ákvæðum 6. gr. a. í lögum nr. 116/2006 um stjórn fiskveiða.

Í atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytinu er nú unnið að gerð lagafrumvarps til að bregðast við áhrifum COVID-19 á þá sem stunda strandveiðar og verður það kynnt nánar á næstu vikum.