Vestfirðir samræma samgöngustefnu

Á vegum Vestfjarðastofu er unnið að því að samræma sýn og forgangsröðun verkefna í samgöngumálum á Vestfjörðum. Sigríður Ó. Kristjánsdóttir, framkvæmdastjóri Vestfjarðastofu segir að horft sé til annarra landshluta við slíka vinnu og  þar hafi sveitarstjórnarmenn náð saman og getað talað einni röddu um verkefni næstu ára.

„Vestfirðingar hafa verið einhuga um framkvæmdir í Gufudalssveit, Dynjandisheiði og Dýrafjarðargöng um margra ára skeið.  Nú eru þau verkefni komin á samgönguáætlun ríkisins og eru í ferli.  Við þurfum því að huga heildstætt að verkefnum næstu ára og þessi vinna er til þess gerð.  Gerð verður öryggisúttekt á vegum á Vestfjörðum þ.e. Vestfjarðaleiðinni.“

Samgöngu- og jarðgangnaáætlun er eitt af áhersluverkefnum stjórnar Vestfjarðastofu og voru settar 5 milljónir króna til þess á þessu ári. Ljóst er að það eru upp ólíkar áherslur um næstu næstu jarðgöng eiga að vera. Bæjarstjórn Vesturbyggðar ályktaði í desember 2019 um samgöngumál og vill að næstu jarðgöng verði á sunnanverðum Vestfjörðum. Segir að mikilvægt sé að unnið verði að undirbúningi jarðganga undir Hálfdán, Mikladal og Kleifaheiði. Sveitarstjórn Súðavíkur vill að Álftafjarðargöng verði næst á dagskrá og undir það er tekið meðal annars með flutningi þingsályktunartillögu á Alþingi sem bæjarfulltrúi í Ísafjarðarbæ og varaþingmaður stendur fyrir.

Fjórðungsþing Vestfirðinga ályktaði á síðasta fjórðungsþing , sem var á Hólmavík síðastliðið haust á þann veg að setja þyrfti jarðgöng undir Hálfdán, Mikladal og til Súðavíkur á jarðgangaáætlun. Ekki er tilgreind röð ganganna í samþykktinni.

Gera má ráð fyrir að vinna stjórnar Fjórðungssambandsins , sem jafnframt er stjórn Vestfjarðastofu snúist um að ná samkomulagi um bæði jarðgangakosti og tímaröð þeirra.

 

Facebook Notice for EU! You need to login to view and post FB Comments!