Tveir strengir um Dýrafjarðargöng

Lagning tveggja jarðstrengja um Dýrafjarðargöng er hafin. Þar er um að ræða annars vegar 132 kV raflínu í eigu Landsnets og hins vegar 11 kV raflínu í eigu Orkubús Vestfjarðar sem mun tengja Þingeyri við Mjólká. Þar með tengist Þingeyri við Mjólká, bæði með jarðstreng og loftlínu.

Þetta kemur fram í skriflegu svari Þórdísar Gylfadóttur ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra við fyrirspurn á Alþingi frá Lilju Rafneyju Magnúsdóttur um Vesturlínu og Dýrafjarðargöng .

Lilja Rafney spurði  að því hvort Vesturlína verði lögð um Dýrafjarðargöng og ef svo er, hvenær línan yrði tekin í notkun og hvað réði tímasetningunni á því.

Í svarinu  segir að um nokkurt skeið hafi verið til skoðunar möguleikar á því hvernig bæta megi afhendingaröryggi raforku á norðanverðum Vestfjörðum og jarðstrengur með raflínu um Dýrafjarðargöng muni spila hlutverk í þeirri styrkingu.

Hins vegar varðandi hvenær strengirnir verði tengdir segir að það liggi ekki fyrir.

„Hvort jarðstrengur Landsnets í gegnum Dýrafjarðargöng verði hluti af nýrri raflínu á milli Mjólkár og Breiðadals eða hluti af núverandi línu er enn þá óákveðið. Verkefnið er á 10 ára kerfisáætlun Landsnets í samræmi við stefnu stjórnvalda um uppbyggingu flutningskerfis raforku.“