Tilfinningar á óvissutímum

Sú óvissa og ógn sem vofir yfir okkur vegna kórónuveirunnar vekur eðlilega upp vanlíðan hjá mörgum. Í einni svipan þurfum við að aðlaga okkur að breyttu mynstri og venjum til að verja okkur og aðra gegn útbreiðslu veirunnar. Atvinna og þar með fjárhagur margra er í uppnámi. Það er sem lífinu hafi verið snúið á hvolf. Það sem áður þótti eðlilegt og fallegt er nú bannað. Ekki er óhætt að heilsa náunganum með handabandi eða faðma ættingja og vini. Margir sæta sóttkví eða þurfa í einangrun og hafa takmarkaðan aðgang að mannlegri nánd sem er einmitt það sem hjálpar okkur oft í gegnum erfiða tíma. Já, lífið er breytt í bili.

Aukinn kvíði og dapurleiki er algengur í ástandi eins og við búum við í dag. Kvíði tengist yfirleitt upplifun af einhvers konar ógn. Sú ógn sem flestir tengja við í dag varðar það að veikjast, smita aðra eða að fjárhagurinn fari norður og niður. Depurð og þunglyndi tengist oftast upplifun af einhvers konar missi. Nú standa margir frammi fyrir atvinnumissi, missi á mikilvægum samskiptum eða bara rútínunni okkar.

Erfið reynsla frá fyrri tíð getur einnig farið að banka upp á og trufla þegar við upplifum andlegt álag eins og margir finna fyrir við þessar kringumstæður. Þannig getur ástandið í dag orðið til þess að rífa  upp gömul sár. Margir finna að á þá leita erfiðar minningar og tilfinningar sem hafa legið í dvala. Sumir fara að endurupplifa atvik, hugsanir, tilfinningar og jafnvel líkamleg streitutengd einkenni og það er eins og þeim sé kippt til baka úr núinu í fortíðina. Þessi fyrri reynsla hefur ekki alltaf beina eða augljósa tengingu við það sem er að gerast í dag.

Hvað getum við gert til að bæta líðan á tímum sem þessum? Mörg góð ráð hafa komið fram og má í því samhengi benda á upplýsingasíðuna covid.is þar sem m.a. er bent á mikilvægi hreyfingar, samskipta í gegnum net og síma og ánægjulegra athafna. Mig langar að benda sérstaklega á þrennt sem getur bætt líðan.

  1. Stjórn. Það hefur sýnt sig að upplifunin af því að hafa stjórn á aðstæðum bætir líðan. Við höfum ekki stjórn á því hvernig veiran breiðist út um heiminn en við getum flest stjórnað einhverju í eigin lífi. Við getum tekið stjórnina á venjum okkar og hegðun, hvað við gerum inni á okkar heimili, hvernig við sköpum okkur rútínu og sinnum eigin heilsu og þörfum. Finnum því eitthvað sem við getum stjórnað og sinnum því.
  2. Þakklæti. Tökum eftir litlu hlutunum sem við getum þakkað fyrir og glaðst yfir hvern dag. Í vanlíðan festist hugurinn auðveldlega í neikvæðni og því sem er erfitt og miður. Ein leið til að bæta líðan er að taka eftir og skrá niður t.d. fimm atriði á dag, sem við getum þakkað fyrir. Þannig stýrum við athyglinni í áttina að góðu augnablikunum og hlutunum sem auðveldlega fara framhjá okkur þegar okkur líður illa. Þegar við beinum huganum að því góða í lífinu þá fylgja gjarnan góðu tilfinningarnar með.
  3. Núvitund. Verum meira í núinu en í fortíð eða framtíð. Núið er það eina sem við höfum í hendi. Fortíðin er farin og framtíðin er ekki komin. Njótum þess sem við getum notið í dag. Tökum eftir umhverfi okkar og verum opin og forvitin um lífið og tilveruna. Skoðum og upplifum fegurðina í því sem er í kringum okkur. Við getum aukið á hamingju og góða líðan með því einfaldlega að staldra við og njóta þess að drekka kaffibollann okkar, skoða pottaplönturnar, fylgjast með fuglunum og dást að útsýninu.

Hlúum vel að okkur og okkar nánasta fólki eins og við getum. Minnumst þess að þessi faraldur tekur enda en á meðan hann stendur yfir er eðlilegt að við finnum tilfinningaleg áhrif. Oft nægir að ræða málin, fara út að ganga eða nota eitthvað af þeim ráðum sem hér hefur verið bent á, en stundum er þörf á að leita til fagaðila. Það er sérstaklega mikilvægt þegar vanlíðan er farin að há okkur og trufla í daglegu lífi. Gerum það sem gera þarf. Förum í gegnum þetta saman.

Guðrún Soffía Gísladóttir
Höfundur er sálfræðingur og starfar á EMDR stofunni www.emdrstofan.is  Hún býður reglulega upp á viðtöl á Ísafirði auk fjarviðtala.

 

 

 

DEILA