Þ-H leið: framkvæmdaleyfið gefið út og kostar 5,3 milljónir króna

Ingimar Ingimarsson, varaoddviti Reykhólahrepps.

Tryggvi Harðarson, sveitarstjóri í Reykhólasveit sagði í samtali við Bæjarins besta að auglýsing um að framkvæmdaleyfi fyrir Þ-H leiðinni hafi verið gefið út muni væntanlega birtast í Lögbirtingarblaðinu á mánudaginn.

Sveitarstjórn Reykhólahrepps samþykkti á fundi sínum á þriðjudaginn að Vegagerðin myndi greiða 5,3 milljónir króna fyrir framkvæmdaleyfið og samkæmt upplýsingum Bæjarins besta hefur Vegagerðin fallist á það.

Ekki var samstaða í sveitarstjórninni um fjárhæðina. Ingimar Ingimarsson, varaoddviti sagði í bókun að upphæðin sé óásættanleg og lagði til að farið yrði í kostnaðargreiningu og rétt upphæð fyrir leyfið yrði fundin.

Tillaga Ingimars var felld með 2 atkvæðum gegn 1, Ingimar greiddi atkvæði með, en Jóhanna Ösp Einarsdóttir  og Árný Huld Haraldsdóttir  greiddu atkvæði gegn.
Ágústa Ýr Sveinsdóttir og Kolfinna Ýr Ingólfsdóttir sátu hjá.

Bókun Ingimars Ingimarssonar:

,,Veglagning um Teigskóg hefur tekið um 17 ár í undirbúning. 5,3 milljónir sem gjald
fyrir 17 ára þvæling málsins í kerfinu er með öllu óásættanlegt. Ég get ekki með
nokkru samþykkt slíka smánar upphæð fyrir vinnu allra þeirra aðila sem komið að
málinu síðustu 17 árin. Ég hvet því aðra sveitarstjórnarmenn til að hafna þessari
smáupphæð og samþykkja gjald sem gæti verið nær því að dekka þann kostnað sem
af málinu hefur orðið. Ég legg því til að samþykkt verði að fara í kostnaðargreiningu
á málinu síðastliðin 17 ár til að finna réttilegan kostnað við framkvæmdarleyfið og
sá kostnaður verði grunnur að nýju framkvæmdarleyfisgjaldi.“

DEILA