Sveitarstjórnir fá frest til að skila ársreikningum

Ákveðið hefur verið að veita öllum sveitarstjórnum landsins heimild til að framlengja tímafresti um meðferð og skil ársreikninga. Auglýsing um ákvörðun samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra varðandi skil á ársreikningum sveitarfélaga hefur verið birt í Stjórnartíðindum.

Þetta er gert til að bregðast við aðstæðum sem skapast hafa vegna Covid-19 kórónaveirufaraldursins. vísað er  í VI. bráðabirgðaákvæði sveitarstjórnarlaga, nr. 138/2011, sem kveður á um að ráðherra geti veitt sveitarstjórnum tímabundna heimild til að víkja frá tilteknum ákvæðum sveitarstjórnarlaga til að sveitarstjórn sé starfhæf við neyðarástand og til að auðvelda ákvarðanatöku.

Heimilt verður að seinka afgreiðslu ársreikningsins um einn mánuð. Ber nú byggðaráði að skila fullbúnum ársreikningi til sveitarstjórnar fyrir 15. maí í stað 15. apríl og sveitarstjórnin skal hafa lokið afgreiðslu sinni fyrir 15. júní í stað 15. maí.