Strandabyggð: fundargerð fæst ekki birt

Frá síðasat Fjórðungsþingi vestfirðinga. Þorgeir Pálsson lengst til hægri. Mynd: Kristinn H. Gunnarsson.

Þorgeir Pálsson, sveitarstjóri neitar að birta fundargerð 1299. fundar sveitarstjórnar Strandabyggðar sem færð var í trúnaðarbók. Fundurinn var haldinn 27. janúar 2020 og var ekkert látið uppi um efni fundarins, aðeins að fundurinn hafi verið haldinn og fundargerð færð í trúnaðarbók.

Sveitarstjóri sagði þá í svari við fyrirspurn frá Bæjarins besta um hvenær fundargerð yrði birt og efni fundarins gert opinbert að það væri erfitt að segja, það færi eftir því hversu hratt málið ynnist en vonandi sem fyrst.

Þann 25. febrúar var gert opinbert hvert fundarefnið var og greint frá því á vefsíðu sveitarfélagsins að innihald fundarins snérist um þann vanda sem þá steðjaði að Kaupfélagi Steingrímsfjarðar. Hefði sveitarfélagið keypt og selt eignir.

Nú segir í svari sveitarstjóra að búið sé að upplýsa um efni fundarins í sérstakri tilkynningu og að fundargerð sem færð er í trúnaðarbók sé ekki birt.

 

Þar með verður að byggja á frásögn sveitarstjóra einvörðungu um það hvað var gert, hvað var samþykkt og hverjir gerðu það.

 

DEILA