Stóra upplestrarkeppnin í 20. skipti á sunnanverðum Vestfjörðum

Á myndinni frá vinstri: Sverrir Elí Fannarsson Fjölnir Úlfur Ágústsson Óliver Logi S. Bjartsson Tryggvi Sveinn Eyjólfsson Sigurbjörg Helga Rögnvaldsdóttir Rakel Sara Sveinsdóttir Berg Sólrún Elsa Steinarsdóttir Bartosz Jan Czubaj Mynd: Páll Vilhjálmsson.

Í fyrradag, fimmtudaginn 12. mars, var lokahátíð Stóru upplestrarkeppninnar haldin fyrir grunnskóla á sunnanverðum Vestfjörðum haldin hátíðleg í Félagsheimili Patreksfjarðar. Til keppni voru mættir 8 nemendur. Stóra upplestrarkeppnin er haldin að frumkvæði Radda, áhugafólks um íslenkst mál, ár hvert í samstarfi við skóla, kennara og nemenda í 7. bekk. Skáld keppninnar í ár voru þeir Birkir Blær Ingólfsson og Jón Jónsson úr Vör. Það var skemmtilegt fyrir íbúa svæðisins þar sem Jón úr Vör fæddist og ólst upp á Vatneyri við Patreksfjörð og ljóð hans úr ljóðabókinni ,,Þorpið” eru til sýnis á víð og dreif um Patreksfjarðarbæ.

Með sanni má segja að ungmennin stóðu sig með prýði enda þrotlausar æfingar að baki.  Þriðja sætið í keppninni hreppti Óliver Logi S. Bjartsson og Tryggvi Sveinn Eyjólfsson lenti í öðru sæti. Sigurvegari keppninnar í ár var Fjölnir Úlfur Ágústsson.

Allir verðlaunahafarnir koma úr Patreksskóla.

Til viðbótar við upplestur fengu gestir að njóta flutnings Vilborgar Lífar Eyjólfsdóttur og Sólrúnar Elsu Steinarsdóttur nemenda í Tónlistarskóla Vesturbyggðar en Sólrún Elsa var einnig ein af keppendum í ár. Annar keppandi, Bartosz Jan Czubaj, flutti gestum til skemmtunar ljóð á móðurmáli sínu, pólsku, við góðar undirtektir.

Það er óhætt að segja að hlakka má til framtíðarinnar með svona flott ungmenni reiðubúin að taka við keflinu.

DEILA