Spýtum í lófana – samt ekki strax

Í Morgunblaði þriðjudagsins birtist ágæt grein eftir menntamálaráðherra, ráðherrann hefur verið hálfgerður undanfari ríkisstjórnarinnar, hvað upplýsingar um efnahagsmál varðar.  Greinin gaf því góð fyrirheit um það sem koma skyldi á kynningarfundi ríkisstjórnarinnar í ráðherrabústaðnum undir hádegi í gær.

Eitthvað virðist upplýsingaflæðið hafa versnað á milli undanfarans og þeirra þriggja ráðherra sem mættu til leiks í ráðherrabústaðnum.  Mörg ágæt og jákvæð áform, til stuðnings efnahagslífinu, sem fram komu í grein menntamálaráðherra og áttu samhljóm með grein formanns Miðflokksins, sem birst hafði í Morgunblaðinu deginum áður, voru hvergi sjáanleg í útspili ríkisstjórnarinnar.

Sá sem hér skrifar varð fyrir töluverðum vonbrigðum með það þunnildi sem borið var á borð í Ráðherrabústaðnum þennan þriðjudaginn.

Mest kom á óvart að tilkynnt var að framlagningu fjármáláætlunar, sem áður hafði verið frestað til loka mars, verði nú aftur frestað fram í seinni hluta maí (sem ekki er víst að verði fyrr en í júní þetta árið, í dagatali ríkisstjórnarinnar).  Af hverju skiptir fjármálaáætlun máli?  Á fjölmiðlafundi í ráðherrabústaðnum, sem haldinn var 28.febrúar, til kynningar á viðbrögðum ríkisstjórnarinnar við óveðrinu í byrjun desember var því frestað að útskýra kjarnaatriðið, framkvæmdahlutann, fram að framlagningu fjármálaáætlunar.    Nú er því frestað enn um sinn að leggja þær meginlínur sem nauðsynlegar eru fyrir atvinnulífið.

Það er jákvætt að ríkisstjórnin sýni því skilning að nauðsynlegt sé að veita súrefni til atvinnulífsins (eða taka minna af því) með því að stíga skref, þó tímabundin séu, til baka hvað skattlagningu og innheimtuhörku varðar, þó enn séu áformin lítt útfærð.  Verra er að skilningur á þörfinni fyrir beina innspýtingu sé jafn takmarkaður og raunin er.

Það er þrennt sem kallar á sérstök viðbrögð stjórnvalda nú um stundir í efnahagslegu tilliti; 1) óveðrið í desember og ástand á dreifikerfi raforku og ofanflóðavörnum, 2) COVIT-19 vírusinn og þær áskoranir sem atvinnulífið, sérstaklega ferðaþjónustan, tekst á við vegna hans og 3) kólnun hagkerfisins og sú hrópandi þörf sem er á aðgerðum og innspýtingu vegna þeirrar stöðu.

Hvað fyrstu tvo liðina varðar þá hafa viðbrögð komið frá ríkisstjórninni, þó að þau séu að mörgu leiti rýr í roðinu.  Varðandi þriðja atriðið og sennilega það mikilvægasta í efnahagslegu tilliti, þá er enn skilað auðu og vísað til framlagningar fjármálaáætlunar, sem nú hefur verið frestað fram undir sumar.

Það er gott að ríkisstjórnin starfar ekki á bráðadeildinni.

Bergþór Ólason, alþm.

DEILA