Norræni súðbyrðingurinn tilnefndur á lista heimsminjaskrár UNESCO

Norðurlöndin öll, ásamt sjálfstjórnarríkjunum, Færeyjum og Álandseyjum, standa saman að tilnefningu norrænnar trébátasmíði á skrá Menningarmálastofnunar Sameinuðu þjóðanna, UNESCO, um óefnislega menningararfleifð mannkynsins. Þar er mælst til að skráð verði verklag, siðir, venjur og hættir sem tengjast norrænum súðbyrtum trébátum. Umsóknin var afhent í vikunni í París, undirrituð af ráðherrum allra norrænu ríkjanna.

Þetta er fyrsta íslenska tilnefningin og jafnframt fyrsta samnorræna tilnefningin.

Í greinargerð segir um súðbyrðinginn:

„Hinn dæmigerði norræni trébátur — súðbyrðingurinn — hefur fylgt Norðurlandabúum um árþúsundir og greitt þeim leið um hafið. Súðbyrðingarnir voru farkostir fólks hvarvetna með ströndum Norðurlandanna. Þeir voru mikilvæg samgöngutæki sem tengdu Norðurlandaþjóðirnar – og á þeim var dregin björg í bú. Súðbyrðingurinn sjálfur er dýrmætur menningararfur og gegnir ríku hlutverki í strandmenningu Norðurlandaþjóðanna. Enn þann dag í dag er norrænum súðbyrðingum haldið til fiskjar og bátasmiðir munda tól sín og tæki til smíða á súðbyrðingnum – og þekking á viðhaldi bátanna er enn til staðar. Þessir fornu farkostir eru sívinsælir til siglinga og veiða meðal almennings.“

En súðbyrtum bátum hefur fækkað verulega undanfarna áratugi og sífellt fækkar bátasmiðum sem kunna til verka, segir í greinargerðinni. „Þegar svo er komið er menningararfur að glatast og líkur á að menningarverðmætin sem felast í norræna súðbyrðingnum hverfi í stað þess að erfast til komandi kynslóða. Því hafa Norðurlöndin sameinast um að fá norrænar hefðir við smíði súðbyrðins settar á lista hjá UNESCO yfir menningarerfðir mannkyns – listann yfir þýðingarmikla starfhætti sem borist hafa frá kynslóð til kynslóðar – hefðir sem munu hverfa verði þeim ekki viðhaldið.“

Um 200 aðilar á Norðurlöndunum, bátasmiðir, söfn og félagagasamtök, standa að baki umsókninni. Á Íslandi var það Vitafélagið- íslensk strandmenning sem leiddi starfið, en að baki umsókninni standa auk þess bátasmiðir og átta söfn, þar með talið Síldarminjasafn Íslands og Þjóðminjasafnið.

Vestfirðingurinn Birkir Þór Guðmundsson hefur komið að þessu máli. Hann segir að með umsókninni séu að verða straumhvörf í varðveislu á aldagömlu handverki sem smíði súðbyrðings er.

„Nú blasir við að handverkið mun fara á lista UNESCO yfir merkilegar menningaerfðir yfir þýðingamikla starfshætti í aldanna rás. Þetta hefur þá merku þýðingu að varðveisla og þekking á handverkinu glatist ekki. Þetta samnorræna verkefni er merku áfangi og er það von þerra sem dregið hafa þennan vagn fyrir hönd Íslands og okkar sem tekið hafa þátt í því að ná þessum merka áfanga að hér á landi verið til samastaður sem heldur utanum varðveisluna. Það má sjá fyrir sér að hér hjá okkur á Vestfjörðum verði til griðastaður handverksins í samvinnu menntastofnanna og byggðasafna í fjórðungnum ásamt virkri þátttöku áhugafólks og annarra um varðveislu menningaminja.“