Miðflokkurinn stærstur í Norðvesturkjördæmi

Miðflokkurinn hefur mest fylgi í Norðvesturkjördæmi í könnun Gallup sem gerð var í febrúar síðastliðnum. Mælist flokkurinn með 22% fylgi. Sjálfstæðisflokkurinn mældist með 21% fylgi. Vinstri grænir og Framsóknarflokkurinn eru með 13% fylgi hvor um sig. Píratar fengu 9% fylgi, Samfylkingin og Flokkur fólksins  7%  hvor, Viðreisn 4% og Sósíalistaflokkurinn mælist einnig með 4%.

Samkvæmt þessum tölum fengju Miðflokkurinn og Sjálfstæðisflokkurinn tvö þingsæti hvor. Vinstri grænir, Framsóknarflokkurinn og Píratar eitt þingsæti hver. Jöfnunarsætið er ómögulegt að reikna út án þess að skoða fylgi flokkanna í öllum kjördæmum.

Þátttökuhlutfall í könnuninni var 54% á landsvísu  og greiningin í Norðvesturkjördæmi byggir á 300 svörum. Þessi könnun Gallup er ólík greiningu á fylgi flokkanna sem Gallup vann fyrir Bæjarins besta að því leyti að hún byggði á rúmlega 1300 svörum í Norðvesturkjördæmi yfir þriggja mánaða tímabil, frá 28. október 2019 til 2. febrúar 2020.

Engu að síður eru fylgistölur mjög svipaðar milli þesssara tveggja kannana og er munurinn um og innan við 2% á fylgi hvers flokks. Í fyrri könnun var Sjálfstæðisflokkurinn með 22%, Miðflokkurinn 20%, Framsóknarflokkurin 15%, Vinstri grænir 11%, Píratar 10% og Samfylking 9%.