MÍ: námið flyst á netið í samkomubanninu

Samkomubann stjórnvalda hófst um miðnættið og  hefur þau áhrif að kennsla í Menntaskólanum Ísafirði flyst yfir á netið þar sem nemendur mega ekki koma í skólann. Jón Reynir Sigurvinsson, skólameistari segir að heimavistin verði lokuð, en þó munu þeir nemendur, sem ekki komast heim strax, dvelja þar áfram um sinn.

Í tilkynningu skólans til nemenda segir  að samkomubannið og skólalokunin hefi miklar breytingar í för með sér fyrir nemendur og starfsfólk skólans.

„Þetta er stórt verkefni sem við erum öll að takast á við. Mikilvægt er að við nálgumst þessar breytingar saman og förum eftir tilmælum stjórnvalda með opnum hug og jákvæðu hugarfari. Markmið okkar allra er að ljúka þessari önn eins og best verður á kosið miðað við aðstæður.“

Kennarar verða í sambandi við sína nemendur í gegnum Moodle og munu setja fyrirmæli þar inn hvernig náminu verður háttað á meðan á skólalokuninni stendur.

Nemendur mega eiga von á að kennarar óski eftir að þeir séu tiltækir, t.d. á fjarfund eða í umræður, eftir því sem stundatafla þeirra segir til um.