Lýðræðishalli á landinu

Orðið lýðræði er bein þýðing á gríska orðinu demokratia.  Lýðræði er það þegar fólkið í landinu ræður, þegar lýðurinn stjórnar.  Þegar fólkið stjórnar milliliðalaust þá tölum við um beint lýðræði.  Dæmi um slikt eru þjóðaratkvæðagreiðslur.  Í Sviss er til að mynda rík hefð fyrir þjóðaratkvæðagreiðslum um stóra og smáa hluti.  Á Íslandi eru þjóðaratkvæðagreiðslur fátíðar enda reiðum við okkur fyrst og fremst á fulltrúalýðræði.  Það virkar þannig að við kjósum okkur fulltrúa til að stýra sveitarfélaginu okkar og svo aðra fulltrúa til að stjórna landinu.  Kannski er þetta ástæðan fyrir því að þegar rætt er um lýðræði á Íslandi þá fara flestir strax að tala um kosningar.  Orðið lýðræðishalli hlýtur þá að vísa til þess að eitthvað sé að kosningakerfinu.  Á Íslandi er miðað við að misvægi atkvæða milli kjördæma sé aldrei meira en 1 á móti 2.  Í Noregi er það 1 á móti 2,5 sé miðað við nyrsta og syðsta fylkið.  Þannig er meiri lýðræðishalli í Noregi en á Íslandi.  Þessari staðreynd er aldrei flíkað í íslenskum fjölmiðlum.  Merkilegt!

En svo er til annars konar lýðræðishalli en bara sá, sem snertir kosningar og vægi atkvæða.  Rétturinn til að kjósa hlýtur ávallt að haldast í hendur við réttinn til að bjóða sig fram til kjörs.  Standa þar allir jafnfætis?  Eiga allir jafna möguleika á því að bjóða sig fram og hljóta kosningu?  Það kann að vera raunin hér á Íslandi en í USA virðist sem að það séu helst fjársterkir aðilar sem eigi raunhæfa möguleika á að bjóða sig fram og ná kjöri eða þá að frambjóðendur þurfi að eiga sér öfluga bakhjarla og stuðningsmenn.

Hér á Íslandi var kosningalögum breytt árið 2000 og auðvitað hefðu menn getað þá jafnað vægi atkvæða og samt haldið áfram að skipta landinu í kjördæmi.  En í staðinn var valin sú leið að hafa mjög stór kjördæmi hvert með mörgum þingmönnum.  Stór kjördæmi og víðlend henta illa sérframboðum eða einstaklingum, sem vilja fara fram gegn flokksforustunni.  Já, og svo settu menn 5% þröskuld svo að lítil framboð ættu helst engan fulltrúa á þingi.  Við alþingiskosningarnar 2017 þá voru 248.463 á kjörskrá.  Ef ekki væri fyrir þennan 5% þröskuld og misvægi atkvæða milli kjördæma þá hefðu 3.944 atkvæði eða 1,6% atkvæða átt að nægja til að koma manni á þing.  Svo var auðvitað ekki því íslenskt kosingafyrirkomulag er með þeim hætti að litlir flokkar komast ekki á þing.  Rödd þeirra fær ekki að heyrast.  Er það lýðræðislegt?  Er það lýðræðislegt að halda minnihlutahópum frá pontu Alþingis?

En lýðræði snýst ekki bara um kosningar og framboð.  Enn mikilvægari þættir í raunverulegu lýðræði eru atriði eins og málfrelsi og tjáningarfrelsi.  Litlir flokkar vilja komast á þing vegna þess að þá geta þeir látið rödd sína heyrast og þá komast þeir í fjölmiðlana.  Fjölmiðlar eru einmitt fjórða valdið.  Og þeir stjórna almennri umræðu á Íslandi.  Og allir helstu fjölmiðlar landsins eru í Reykjavík.  Þetta þýðir að reykvískir fréttamenn og þáttastjórnendur stýra opinberri umræðu á Íslandi að verulegu leyti.  Er það lýðræðislegt?  Er það lýðræðislegt að leiðarar helstu dagblaða á Íslandi séu skrifaðir af fólki, sem allt á heima á Stór-Reykjavíkursvæðinu?  Þýðir það ekki að sjónarhorn fólks á suðvesturhorninu ræður því hvaða mál séu sett á oddinn hverju sinni?  Og þýðir þetta ekki þá jafnframt að sjónarhorn landsbyggðarfólks liggi í láginni?  Kannski er lýðræðishalli á fleiri sviðum á Íslandi en sumir halda?

Almennt er það álitið vera einkenni á vestrænu og frjálslyndu lýðræði að það standi vörð um réttindi einstaklinga og minnhlutahópa.  Ennfremur einkenni það vestrænt lýðræði að gætt sé valdjafnvægis og þess að einn hópur eflist ekki um of á kostnað annarra.  Þetta er meðal annars gert með því að greina á milli ólíkra valdsviða.  Í stjórnarskránni eru þrjú valdssvið tilgreind; dómsvald, framkvæmdavald og löggjafarvald.  Í reynd þá ræður meirihluti Alþingis að verulegu leyti yfir framkvæmdavaldinu.  En hvað með fjórða valdið, fjölmiðlana, er ekkert athugavert við það hverjir ráða yfir þeim?  Af hverju skyldu fjársterkir aðilar úr hópi útrásarvíkinga hafa lagt svo mikla áherslu á að ráða yfir eða hafa áhrif á íslenska fjölmiðla á árunum fyrir bankahrunið?  Svarið er einfalt; þeir vildu stýra umræðunni.  Þeir, sem stýra umræðunni, móta skoðanir fólks.  Og slíkri stjórnun fylgja völd.  Það er fjórða valdið.  Og á því valdssviði er lýðræðið minnst.

Einmitt þess vegna er ég svo glaður yfir því að við Vestfirðingar eigum enn öflugan fréttamiðil á borð við BB.

Magnús Erlingsson.