Kortlagning smávirkjanakosta

Orkustofnun hefur samið við Verkfræðistofuna Vatnaskil um kortlagningu vænlegra smávirkjanakosta. Finna skal álitlega staði fyrir smávirkjanakosti með afl á bilinu 100 kW -10 MW, meta möguleika á dægurmiðlun við inntak og meta gróflega óvissu í afli þeirra virkjunarkosta sem finnast.

Kortlagningin skal taka til þriggja landshluta, Vesturlands, Vestfjarða og Austurlands.

Áður hefur Orkustofnun látið kanna ýmsa smávirkjanakosti víðsvegar um landið, meðal annars með útreikningum á langæi rennslis fyrir valda kosti í Eyjafirði, Snæfellsnesi og Vestfjörðum þar sem Vatnaskil beittu vatnafarslíkani við ákvörðun á langæi rennslis fyrir kosti sem þegar höfðu verið teknir til frumathugunar af hagsmunaaðilum á viðkomandi svæðum.

Við kortlagninguna nú er hins vegar ekki horft til fyrirliggjandi hugmynda um virkjanakosti heldur nýtt landfræðileg og veðurfræðileg gögn og reikniaðferðum beitt á þau til að ákvarðamögulega orkugetu vatnsfalla fyrir heilu landsvæðin. Með þessu móti koma fram fjölmargir hugsanlegir virkjunarkostir sem vert væri að taka til nánari skoðunar, og yfirlit fæst yfir mögulega orkugetu landshlutans í heild ásamt því að dregnar eru fram staðsetningar sem vert væri að taka til frekari skoðunar gagnavart virkjun vatnsafls.

Skýrsla um virkjunarkosti á Vesturlandi er nú komin út og munu skýrslur um hina landshlutana væntanlegar.

DEILA