Ísafjarðarflugvöllur: bílastæði malbikuð í ár

Meirihluti fjárlaganefndar leggur til að  veittar verði 80 millj. kr. til að malbika bílastæði við Ísafjarðarflugvöll. Þetta kemur fram í nefndaráliti meirihlutans um frumvarp til fjáraukalaga fyrir árið 2020 og tillögu til þingsályktunar um sérstakt tímabundið fjárfestingarátak sem dreift var á Alþingi á sunnudaginn.

Í fjáraukalagafrumvarpinu  eru lagðar til nokkrar afmarkaðar breytingar á gildandi fjárlögum sem lúta að tilteknum hluta mótvægisráðstafana stjórnvalda í tengslum við það áfall á efnahag landsins sem leiðir af heimsfaraldri COVID-19.  Útgjöld ríkissjóðs verða hækkuð um 21,1 milljarð króna. Fjárlaganefndin bætir nærri þremur milljörðum króna við. Einkum er að ræða ýmis fjárfestingarverkefni sem ráðast á í til þess að auka atvinnu.

Malbikun Ísafjarðarflugvallar er samkvæmt tillögunum eitt af þeim verkefnum sem ráðist verður í á þessu ári.

Í máli Njáls Trausta Friðbertssonar, alþm. í umræðunni í gær kom fram að verið væri að verja 300 milljóna króna til innanlandsflugvallakerfisins. Það hafi verið vanfjármagnað í mörg ár og þyrfti 2 milljarða króna til þess að bæta úr. Fyrir löngu hefði þurft að vera búið að malbika bílastæðin við Ísafjarðarflugvöll.

Facebook Notice for EU! You need to login to view and post FB Comments!