Ísafjarðarbær: snjómokstur tvöfaldast

Útlit er fyrir að snjómokstur ársins verði tvöfalt meiri en gert er ráð fyrir í fjárhagsáætlun 2020. Þar er snjómoksturinn áætlaður 43,6 milljónir króna fyrir allt árið.

Kostnaðurinn bara í janúar fór langt fram úr áætlunum og og varð 30,2 milljónir króna. Þar af voru 22,4 milljónir króna aðkeyptur mokstur. Í minnisblaði sem lagt var fyrir bæjarráð í gær segir að mokstur í febrúar verði álíka umfangsmikill og í janúar og  því er ljóst „að huga þarf að viðauka við snjómokstur og má áætla að hann verði tvöfalt hærri en áætlun gerði ráð fyrir miðað við óbreytt ástand.“

Bæjarstjóra var falið að kanna með hvaða hætti er hægt að koma til móts við aukinn kostnað á árinu 2020 vegna snjómoksturs.