Indriði á Skjaldfönn : heiðursfélagi í Jöklarannsóknarfélaginu

Indriði Aðalsteinsson, Skjaldfönn var gerður að  heiðursfélaga í Jöklarannsóknarfélagi íslands á aðalfundi félagsins þann 25. febrúar síðastliðinn.

Magnús Tumi Guðmundsson, formaður félagsins sagði í samtali við Bæjarins besta  að það hefði verið fyrir framlag hans til mælinga á Kaldalónsjökli, sem gengur úr Drangajökli. „Okkur þótti öllum ákaflega vænt um að geta heiðrað Indriða fyrir hans góðu störf með þesssum hætti“ sagði Magnús Tumi.

Í greinargerð segir eftirfarandi:

„Indriði Aðalsteinsson á Skjaldfönn tók við mælingum á Kaldalónsjökli af föður sínum, Aðalsteini Jóhannssyni árið 1983 og var að til 2014 eða í rúma þrjá áratugi. Kaldalónsjökull er skriðjökull sem gengur úr Drangajökli niður í Kaldalón.  Indriði skrifaði á hverju ári úr Skjaldfannardal afbragðs tíðar- og aldarfarspistil sem birtur var í Jökli í árlegri grein um sporðamælingar. Aðalsteinn, faðir Indriða, mældi Kaldalónsjökul samfellt frá 1933 eða í 49 ár.  Mælingar þeirra feðga spanna því á níunda tug ára.“

„Á grundvelli starfs í nálega þriðjung aldar þar sem Indriði hélt við mikilvægri mælingaröð var hann kjörinn heiðursfélagi í Jöklarannsóknafélagi Íslands á aðalfundi félagsins þann 25. febrúar síðastliðinn“ sagði Magnús Tumi Guðmundsson að lokum.

Auk Indriða voru sex aðrir kjörnir heiðursfélagar á fundinum.  Heiðursfélagar eru yfirleitt ekki kjörnir í nema á 10 ára fresti.  Í ár á félagið 70 ára afmæli og var heiðursfélagakjörið í tilefni þess.