HVEST: hætt við utanlandsferðir starfsmanna

Sjúkrahúsið Patreksfirði.

Gripið hefur verið til ýmissa ráðstafana við Heilbrigðisstofnun Vestfjarða vegna kórónufaraldursins COVID19. Enn sem komið er hefur ekkert smit verið greint á Vestfjörðum.

Að sögn Gylfa Ólafssonar, forstjóra var hætt  við fyrirhugaðar náms- og ráðstefnuferðir starfsmanna til útlanda og verðar engar nýjar beiðnir teknar fyrir eins og er. Margvíslegar ákvarðanir hafa verið teknar  vegna veirusjúdómsins og eru þær af ýmsu tagi.

Nokkrar þeirra eru:

Starfsfólk sem á bókaðar ferðir til útlanda á að ræða það við sinn næsta stjórnanda og boðið að leita til sóttvarnalæknis til þess að fá leiðbeiningar. Þá hefur fræðslufyrirlestrum og námskeiðum innanhúss  verið frestað.

Keyptur hefur verið aukinn búnaður, sótthreinsiefni og hjúkrunarvörur til að geta brugðist við hverju sinni. Reglulegir fundir og samráð er með öðrum heilbrigðisstofnunum, almannavörnum, kjara- og mannauðssýslu ríkisins, sóttvarnalækni og landlækni.

Í síðustu viku var sett heimsóknabann  á bráða/legu- og hjúkrunardeildum þar sem vistmenn á bráða/legu- og hjúkrunardeildum eru viðkvæðmir fyrir veirunni. Undanþágur eru veittar af deildarstjóra, helst fyrir aðstandendur mjög veikra og barna.Samkomur heimilismanna (t.d. afmæli) á hjúkrunarheimilunum eru ekki leyfð. Tilmæli til heimilismanna á hjúkrunarheimilum að taka ekki þátt í stórum mannfögnuðum.

Umdæmislæknir sóttvarna hefur verið í miklum samskiptum við ýmsa aðila; sveitarfélög, söfnuði, félagasamtök, ferðaþjónustufyrirtæki og fleiri til að útskýra og ráðleggja

Stjórn sóttvarna:

Skipuð hefur verið stjórn sóttvarna sem fundar reglulega.

Í henni sitja: Forstjóri (GÓ), umdæmislæknir sóttvarna (SBÁ), formaður sýkingavarnarnefndar norðursvæðis (SG), framkvæmdastjóri lækninga (AK), framkvæmdastjóri hjúkrunar (HEP), hjúkrunarstjóri Patreksfirði (SMM).

Allir stjórnendur fá fundargerðir sendar samdægurs.

DEILA