Hvalárvirkjun: Strandabyggð gerir ekki athugasemd

Hólmavík. Mynd: Kristinn H. Gunnarsson.

Sveitarstjórn Strandabyggðar afgreiddi á fundi sínum í gær erindi frá skipulagsfulltrúa Árneshrepps  þar sem kynntar eru breytingar á aðalskipulagi Árneshrepps og nýs deiliskipulags í tengslum við Hvalárvirkjun í Ófeigsfirði.

Málið var lagt fyrir sveitarstjórn 11. febrúar en afgreiðslu var frestað svo fulltrúum væri unnt að kynna sér málið betur. Erindið var tekið fyrir að nýju í gær og varð það niðurstaða sveitarstjórnar, að sögn Þorgeirs Pálssonar, sveitarstjóra að sveitarstjórn gerir ekki athugasemd við fyrirhugaðar skipulagsbreytingar á aðalskipulagi og deiliskipulagi.

 

Önnur nágrannasveitarfélög Árneshrepps eru Ísafjarðarbær og Kaldrananeshreppur. Ísafjarðarbær afgreiddi sína umsögn í síðasta mánuði og er hún samhljóða afgreiðslu sveitarstjórnar Strandabyggðar nú.

Kaldrananeshreppur gengur frá sinni umsögn á næsta fundi sveitarstjórnar. Finnur Ólafsson, oddviti sagði í samtali við Bæjarins besta að hann ætti ekki von á öðru en að sveitarstjórn tæki sömu afstöðu og myndi ekki gera athugasemdir.

DEILA