Hertar aðgerðir vegna kórónaveirunnar

Viðbragðsáætlun Bolungarvíkurkaupstaðar hefur verið uppfærð í samræmi við hertar aðgerðir sem tóku gildi í gær.

Helstu breytingar sem gerðar hafa verið frá fyrstu útgáfu viðbragðsáætlunar eru að:

  • Félagsmiðstöðinni Tópaz hefur verið lokað.
  • Félagsheimili Bolungarvíkur hefur verið lokað.
  • Bókakaffi Bolungarvíkur hefur verið lokað.
  • Íþróttamiðstöðin Árbær var lokað í gærkvöldi.
  • Ferðir frístundarútu eru felldar niður.
  • Tónlistarskóli Bolungarvíkur kennir einungis í fjarkennslu.

Útibúum Landsbankans hefur verið lokað:

Vegna herts samkomubanns og til að sporna gegn útbreiðslu Covid-19 geta viðskiptavinir aðeins fengið afgreiðslu í útibúi ef erindið er mjög brýnt og ekki er hægt að leysa úr því með öðrum hætti, þ.e. í sjálfsafgreiðslu eða með samtali við Þjónustuver. Til að fá afgreiðslu er nauðsynlegt að panta tíma fyrirfram. Breytingarnar tóku gildi í morgun þriðjudaginn 24. mars 2020 og gilda þar til samkomubanni stjórnvalda verður aflétt.

Þetta á við um útibúið á Ísafirði og afgreiðsluna í Bolungavík.  Þau eru lokuð.

Bóka þarf tíma fyrir símtal

Landsbankinn hvetur viðskiptavini til að óska aðeins eftir afgreiðslu í útibúi ef erindið er mikilvægt og ekki er hægt að leysa úr því með öðrum hætti, s.s. með stafrænum þjónustuleiðum bankans, Landsbankaappinu, í netbankanum eða með samtali við Þjónustuver, með tölvupósti eða með því að senda fyrirspurn í gegnum netspjallið á landsbankinn.is.

Ef ekki reynist mögulegt að afgreiða erindið með þessum hætti þarf að bóka símtal við ráðgjafa. Hægt er að bóka símtal á vef bankans, með því að hafa samband við Þjónustuver eða í gegnum netspjallið hér á vefnum. Afgreiðsla er aðeins veitt í útibúi ef tími hefur verið pantaður fyrirfram.

Lilja Björk Einarsdóttir, bankastjóri Landsbankans, segir: „Með því að takmarka afgreiðslu í útibúum tímabundið drögum við úr hættu á útbreiðslu Covid-19 og stuðlum að bættu öryggi viðskiptavina og starfsfólks. Um leið fær starfsfólk mikilvægt svigrúm til að sinna óskum viðskiptavina um upplýsingar, úrræði og aðstoð. Við leggjum mikla áherslu á að styðja við viðskiptavini okkar um allt land á meðan þetta ástand varir. Í langflestum tilfellum má ljúka erindum með rafrænum hætti, með símtali eða tölvupósti. Við munum leysa úr málunum saman.“