Heitt vatn á Ófeigsfjarðarheiði

Heitt vatn finnst á Ófeigsfjarðarheiði. Það er að finna í klöppinni í bakka Krossárinnar sem kemur úr Nónhnjúkum og rennur í Rjúkanda. Að sögn Péturs Guðmundssonar, eiganda Ófeigsfjarðar er vatnið um 37° C heitt og sjálfrennandi og er um  4 – 5 km loftlínu frá Ófeigsfjarðarbænum. Pétur segir að menn hafi orðið varir við það í sleðaferð nýlega.

Frá jarðhita á heiðinni er greint í skýrslu sem Orkustofnun gaf út í júní 2007 um Hvalárvirkjun, sem Almenna verkfræðistofan hf  hafði gert og var forathugun um virkjunarkostinn.

Þar segir í kafla um  jarðfræði svæðisins:

„Samkvæmt athugunum Hauks Jóhannessonar jarðfræðings [9 og 10] er allmikið um
sprungur með norður/suður stefnu nánast á öllu virkjunarsvæðinu. Á nokkrum stöðum
við Hvalá finnst vottur af jarðhita sem gæti bent til virkni sprungnanna. Enn meira er
um jarðhita sunnar á svæðinu við Rjúkanda, Krossá og í Lambatungum sunnan Hvalár,
en á þessum svæðum er ekki gert ráð fyrir neinum virkjunarmannvirkjum. Hitastig
jarðhitans er mjög lágt við yfirborð, víðast aðeins 10-15°C en nær þó um og yfir 25°C
þar sem hiti er hæstur.“

DEILA