Heimsóknarbann á Barmahlíð

Tekin hefur verið ákvörðun um að setja á heimsóknarbann á hjúkrunarheimilið Barmahlíð á Reykhólum frá 10. mars, um óákveðinn tíma vegna Covid 19 veirufaraldurs.  Þetta er gert til þess að tryggja sem best öryggi heimilisfólks og íbúa.

„Nú er staðfest að smit vegna kórónaveirunnar hafa borist á milli einstaklinga í þjóðfélaginu. Þar sem íbúar Barmahlíðar tilheyra þeim hópi þeirra sem eru í sérstökum áhættuhóp að veikjast alvarlega af kórónaveiru er þessi ákvörðun tekin.  Er það von okkar að þessu verði vel tekið og sýndur skilningur“ segir í tilkynningu frá hjúkrunarheimilinu Barmahlíð.

HVEST: heimsóknir leyfðar

Hins vegar eru heimsóknir enn leyfðar á hjúkrunarheimilum og bráðadeild Heilbrigðisstofnunar Vestfjarða samkvæmt tilkynningu frá því í gær.

Sú ákvörðun er þó endurskoðuð daglega út frá stöðu smita í umdæmi stofnunarinnar.

Þeir sem koma í heimsókn til ættmenna á hjúkrunarheimilum og legudeild eru beðnir um að hafa eftirfarandi í huga:

  • Handþvottur er mikilvægasta ráðið til að forðast smit og einnig er mikilvægt að nota handspritt. Hafið þetta alltaf í huga þegar komið er í heimsókn.
  • Forðist alla líkamlega snertingu eins og hægt er svo sem handabönd, faðmlög og kossa við íbúa.
  • Forðist að koma við snertifleti í almennum rýmum svo sem handriði og hurðarhúna.

Þeir sem eru með kvefeinkenni, flensulík einkenni eða hafa ferðast nýlega til skilgreindra áhættusvæða samkvæmt upplýsingum á vef landlæknis eru beðnir um að gæta varúðar og koma ekki í heimsókn á stofnunina.

Staða mála getur þó breyst dag frá degi og eru fólk beðið um að fylgjast með leiðbeiningum á vef Landlæknisembættisins.