Heilbrigðisráðherra: heilbrigðisþjónustan á ábyrgð forstjóra HVEST

Í svari upplýsingafulltrúa Heilbrigðisráðuneytisins  við fyrirspurnum Bæjarins besta til heilbrigðisráðherra segir að það hafi ekki verið tekin formleg ákvörðun um að loka heilsugæsluselinu á Flateyri og ennfremur segir að forstjóri Heilbrigðisstofnunar Vestfjarða hafi það hlutverk að tryggja íbúum í heilbrigðisumdæmi stofnunarinnar nauðsynlega og örugga heilbrigðisþjónustu samkvæmt metinni þörf á hverjum stað, innan ramma fjárlaga.

 

Fyrirspurn Bæjarins besta til heilbrigðisráðherra:

 

Í lok árs 2018 tók forstjóri Heilbrigðisstofnunar Vestfjarða þá ákvörðun að loka heilsugæsluselinu á Flateyri snemma árs 2019 í sparnaðarskyni. Húsnæðið var síðan selt.

Þegar snjóflóðin féllu á Flateyri í janúar 2020 var staðan þannig að stofnunin hafði engan starfsmann á Flateyri, ekkert húsnæði, engin tæki né búnað sem nýtast mætti til að hlúa að slösuðum og/eða veikum og svo hafði verið um margra mánaða skeið.

Þá voru allar leiðir til og frá Flateyri lokaðar.

Af þessu tilefni er spurt:

1. Hvernig  komst Heilbrigðisráðherra að þeirri niðurstöðu í lok árs 2018 að lokun selsins á Flateyri væri ásættanlegt aðgengi íbúanna á Flateyri að heilbrigðisþjónustu ríkisins?

  1. Var lokunin á Flateyri ákveðið án samráðs við ráðuneytið eða með þess samþykki?
  2. Nýlega lokaðist leiðin til Suðureyrar dögum saman og oft síðustu vikur hefur lokast milli Súðavíkur og Ísafjarðar og varð eitt sinn að kalla til Björgunarsveit til þess að flytja sjúkling til Ísafjarðar frá Súðavík sjóleiðina. Hefur   heilbrigðisráðherra látið meta hvort þetta séu viðunandi aðgengi að heilbrigðisþjónustu með tilliti til þeirra aðstöðu og þjónutsu sem er í þessum þorpum og hyggst ráðherrann beita sér fyrir breytingum til að tryggja meira öryggi?

 

Svör Heilbrigðisráðuneytisins:

Það hefur ekki verið tekin formleg ákvörðun um að loka heilsugæsluselinu á Flateyri en það er rétt að húsnæði fyrir starfsemina, sem Heilbrigðisstofnun Vestfjarða var með á leigu og þótti óhentugt, var selt af eiganda þess þegar leigusamningurinn rann út. Forstjóri Heilbrigðisstofnunar Vestfjarða hefur það hlutverk að tryggja íbúum í heilbrigðisumdæmi stofnunarinnar nauðsynlega og örugga heilbrigðisþjónustu samkvæmt metinni þörf á hverjum stað, innan ramma fjárlaga.

Ráðherra er kunnugt um stöðuna varðandi heilsugæsluselið á Flateyri en þess má geta að eftir að snjóflóðin féllu í janúar hefur heilbrigðisstofnunin verið með þjónustu þar til að veita fólki sálfræðimeðferð í kjölfar flóðanna. Það er alveg ljóst að rekstur á húsnæði fyrir heilsugæslusel er ekki starfsemi sem er til þess fallin að tryggja öryggi íbúa vegna bráðatilvika eða skyndilegra og alvarlegra atburða eins og t.d. snjóflóða. Heilsugæslusel tryggja ekki viðvarandi mönnun heilbrigðisstarfsfólks á staðnum þar sem þau eru með takmarkaðan opnunartíma og starfsfólkið ekki endilega búsett í viðkomandi bæjarfélagi. Öflug bráðaþjónusta, vel þjálfaðir sjúkraflutningamenn og vettvangsliðar skipta mestu þegar óvæntir atburðir eiga sér stað og Heilbrigðisstofnun Vestfjarða í samvinnu við ráðuneytið vinnur markvisst að því að efla bráðaþjónustuna til að tryggja öryggi fólks hvar sem það býr í heilbrigðisumdæmi Vestfjarða.