Háafell: blendin viðbrögð við ráðgjöf Hafró

 

Leitað var eftir viðbrögðum Háafells ehf við ráðgöf Hafrannsóknarstofnunar sem kynn tvar í gær. Sú breyting varð á afstöðu stofnunarinnar að lagt er til að heimila laxeldi í sjókvíum í Ísafjarðardjúpi. Þó með þeirri takmörkun að eldið verði utan línu frá Æðey í Ögurnes. Hámarkslífmassi fari ekki fram úr 12.000 tonnum, en burðarþolsmatið fyrir Djúpið allt er 30.000 tonn.

Kristján G. Jóakimsson  sjávarútvegsfræðingur varð fyrir svörum:

„Fyrstu viðbrögð okkar hjá Háafelli eru blendin. Það er jákvætt að Djúpið sé loksins opnað fyrir laxeldi á ný en tillagan um að loka fyrir laxeldi innan við Æðey veldur okkur áhyggjum. Ríflega helmingur eldissvæða okkar er fyrir innan Æðey og hefur þetta því mikla þýðingu fyrir okkur.

 

Þessi ráðstöfun er ekki rökstudd með vísindalegum gögnum í nýja matinu. Í núverandi reglugerð um fiskeldi eru fjarlægðarmörk 5 kílómetrar og 15 kílómetrar út frá hve stórar árnar eru og höfum við tekið mið af því við skipulagningu eldissvæða okkar. Núna kemur hinsvegar órökstudd tillaga um að búa til ný fjarlægðarmörk uppá 25 kílómetra frá Langadalsá að Æðey, en til samanburðar virðast slík fjarlægðarmörk ekki eiga gilda um Laugardalsá sem vekur furðu.

 

Að öðru leyti munum við að leggjast ýtarlega yfir matið áður en við komum með frekari viðbrögð.“