Fugl dagsins er Bjartmáfur

Bjartmáfur er vetrargestur sem líkist mjög hvítmáfi en er minni, fíngerðari, með hnöttóttara höfuð og brattara enni, frábrugðið flötu höfði hvítmáfs.

Búningar og búningaskipti fullorðins bjartmáfs og ungfugls eru svipuð og hjá hvítmáfi.
Kynin eru eins, en karlfuglinn er heldur stærri.

Fiskur, t.d. sandsíli og loðna, svo og fiskúrgangur. Einnig þangflugur, krabbar og skeldýr.
Aflar sér aðallega fæðu á sundi, hleypur stundum eftir yfirborðinu með blakandi vængi og tínir upp agnir.

Bjartmáfur heldur sig mest með ströndum fram, oft með öðrum máfum. Sést sjaldan á landi, þó stundum á tjörnum og sjávarlónum, helst síðla vetrar eða snemma vors.

Bjartmáfur er vetrargestur frá varpstöðvum á Grænlandi, Baffinslandi og nálægum eyjum, oft í stórum hópum. Fullorðnir fuglar halda fyrr frá landinu á útmánuðum, eru að mestu farnir í marslok, en ungfuglar sjást áfram, fram í maí. Sést stöku sinnum á sumrin