Frumvarp um nýtt fyrirkomulag á jöfnun flutningskostnaðar olíuvara í samráðsgátt

Í gær birti Samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytið drög að frumvarpi til laga um breytingu á lögum um svæðisbundna flutningsjöfnun og lögum um jöfnun á flutningskostnaði olíuvara þar sem meðal annars er gert er ráð fyrir að flutningsjöfnuarsjóður olíuvara verði lagður niður.

Á samráðsgátt stjórnvalda er gefnir fjórir dagar til að koma athugasemdum á framfæri það er til 20 mars.

Þessi stutti frestur vekur athygli þar sem fram kemur í greinargerð með frumvarpinu að málefni flutningsjöfnuarsjóðsins hafa verið árum saman til umfjöllunar hjá ráðuneytinu.

Frumvarpið felur í sér tvennskonar breytingar. Annars vegar eru lög um jöfnun á flutningskostnaði olíuvara felld úr gildi. Með því móti er það stjórnskipulag sem byggt hefur verið upp í kringum sjóðinn afnumið og hætt verður að leggja sérstakt flutningsjöfnunargjald á allar olíuvörur, sem fluttar eru til landsins og ætlaðar eru til nota innanlands.

Hins vegar er lagt til að breyting verði gerð á lögum um svæðisbundna flutningsjöfnun sem feli í sér fyrirkomulag um stuðning við flutning á olíuvörum til svæða sem standa höllum fæti í byggðalegu tilliti og búa við skerta samkeppni af landfræðilegum og lýðfræðilegum ástæðum.