Framtíðin er björt

Við tökum öll misjafnlega á móti þessum vágesti sem Covid19 veiran er í okkar samfélagi. Það er eðlilegt að hafa áhyggjur eða kannski að vera reiður út í veiruna og allt það vonda sem hún ber til okkar.

Hinsvegar er mikilvægt að hugsa til þess að þetta mun taka enda og þrátt fyrir allt, þá eru bjartir tímar framundan fyrir okkar samfélag. Hér eru mörg verkefni í farvatninu eins og t.d. fiskeldi og Bolafjall sem munu efla samfélagið og styrkja í nánustu framtíð.

Okkar hlutverk er að komast í gegnum skaflinn og í sameiningu komust við í gegnum þetta verkefni tilbúinn að takast á við það næsta eins og fólkið á undan okkur hefur gert í gegnum aldirnar.

Öll höfum við hlutverk í þessu verkefni að kveða niður veiruna og við höfum öll tækifæri til að leggja okkar af mörkum. Flest okkar höfum verið stödd í flugvél og hlustað á flugþjónin segja frá öryggisatriðum um borð. Hvað skal gera ef það versta sem gerist og súrefnisgrímurnar falla niður úr hólfinu fyrir ofan sætið. Þar er okkur kennt að setja grímuna fyrst á sjálfan sig og svo á barnið þitt ef það situr við hlið þér. Af hverju þú fyrst, þegar það er innprentað í okkur öll að setja öryggi barnanna okkar í fyrsta sæti? Ástæðan er einföld. Ef þú ert ekki í sjálf/ur í lagi, þá getur þú ekki hjálpað öðrum!

Þannig má ekki gera lítið úr því verkefni í samkomubanninu að hvert og eitt okkar þarf að hugsa um sjálft sig til að vera í standi til að hjálpa öðrum. Gætum að líkamlegri og andlegri heilsu, t.d. með því að tala við þá sem standa okkur nærri ef okkur líður illa, förum í göngutúra, á gönguskíði eða finnum æfingar á netinu til að finna æfingarnar sem hentar okkur. Allir geta fundið eitthvað sem hentar hverjum og einum.

Svo eru það verkefnin sem við getum tekið að okkur til að hjálpa öðrum. Mikilvægasta verkefnið er að gera allt okkar til að koma í veg fyrir smit. Fylgja fyrirmælum, fylgja fyrirmælum, fylgja fyrirmælum. Hægt er að lesa sér til um aðgerðir á www.covid.is þar sem ítarlegar upplýsingar eru um hvað er best að gera til að koma í veg fyrir smit og lágmarka áhætta á því að þú smitir aðra.

Í samkomubanni, þá eru ýmis verkefni sem allir geta tekið að sér til að hjálpa samfélaginu og náunganum í gegnum skaflinn, eins og t.d. að fara og moka frá hjá þeim sem geta það ekki sjálfir, hringja í vin sem fær ekki heimsókn eða að versla við þjónustuaðilana í bænum. Svo má ekki gleyma gleðinni og mikilvægi þess að brosa til næsta manns er mikilvægara nú en endranær.

Við munum komast í gegnum þetta verkefni og þetta mun taka enda. Við megum ekki gleyma því að framtíðin er björt og það eru spennandi verkefni framundan sem munu hafa mikil áhrif á samfélagið við Djúp. Handan þessa verkefnis er eftirsótt og sterkt samfélag sem mun halda áfram að vaxa og dafna til langrar framtíðar.

 

Jón Páll Hreinsson,

bæjarstjóri Bolungavík.