Frá Velferðarsviði Ísafjarðarbæjar vegna COVID-19

Þar sem velferðarsvið Ísafjarðarbæjar fer með þjónustu við fólk sem er í viðkvæmri stöðu eða er með undirliggjandi sjúkdóma hefur verið ákveðið að draga úr mögulegri smithættu með því að takmarka þjónustu við viðkvæma hópa.

Dagdeildin á Hlíf er opin en óviðkomandi er bannaður aðgangur og fólk sérstaklega beðið að virða hertar hreinlætisaðgerðir. Það sama gildir um félagsstarf eldri borgara á Ísafirði, Þingeyri, Flateyri og Suðureyri.

Hvesta, hæfingarstöð, er opin fyrir þá sem þar starfa en öðrum er ekki heimill aðgangur. Sérstökum tilmælum er beint til þeirra sem eiga nauðsynleg erindi í Hvestu um að tryggja sóttvarnir og hreinlæti.

Í búsetu fatlaðra, þar sem veitt er sólarhringsþjónusta, er fólk sérstaklega beðið um að sýna aðgát og koma ekki í heimsókn ef það hefur flensueinkenni, virða hertar reglur um sóttvarnir og hreinlæti og kynna sér leiðbeiningar sem hafa verið settar upp á heimilunum.

Áfram er veitt heimaþjónusta til aldraðs og fatlaðs fólks, akstursþjónusta og heimsending matar. Á þeim vettvangi, sem og öðrum, er minnt á að tryggja skuli sóttvarnir og hreinlæti.

Það er hér með ítrekað að aldraðir, fatlað fólk og fólk með undirliggjandi sjúkdóma er sérstaklega viðkvæmur hópur. Því er höfðað til ábyrgðar almennings um að forðast mannamót að óþörfu og forðast samskipti við aðra ef flensueinkenni gera vart við sig.

Þessar ákvarðanir miðast við nýjustu leiðbeiningar um viðbrögð. Komi til þess að auka þurfi takmarkanir á þjónustu vegna mögulegrar útbreiðslu COVID-19, verða þær tilkynntar sérstaklega.

DEILA