Formlegt samstarf slökkiliða Ísafjarðabæjar og Súðavíkur

Gengið hefur verið frá samstarfssamningi milli slökkviliðs Ísafjarðarbæjar og slökkviliðs Súðavíkur. Samningurinn var lagður fram í bæjarráði Ísafjarðarbæjar á mánudaginn. Bæjarráð frestaði málinu en fól bæjarstjóra að vinna málið áfram.

Í samningnum er kveðið á um heimild slökkviliðs Súðavíkur til þess að óska eftir aðstoð slökkviliðs Ísafjarðarbæjar vegna stærri mengunar og eiturefnaslysa og að sama skapi heimild slökkviliðs Ísafjarðarbæjar til þess að óska eftir aðstoð slökkviliðs Súðavíkur vegna brunaútkalla eða annarra lögbundinna verkefna á sínu starfssvæði.

Fari vinnustundir vegna útkalls fram yfir 10 skal greitt eftir gjaldskrá viðkomandi slökkviliðs.

Samningurinn var undirritaður 18. mars og skal endurskoðaður á þriggja ára fresti. Samningurinn er uppsegjanlegur með 12 mánaða fyrirvara.