Flateyri: verkefnastjórn í undirbúningi

Frá íbúafundi á Flateyri.

Ein af tillögum starfshóps  um aðgerðir til að treysta atvinnulíf og búsetu á Flateyri í kjölfar snjóflóðanna 14. janúar er að styðja við  nýsköpunar- og þróunarverkefni fyrir Flateyri.

Í skýrslu starfshópsins stendur:

„Ráðinn verði verkefnisstjóri á vegum Vestfjarðastofu í samstarfi við Ísafjarðarbæ fyrir
nýsköpun og atvinnuþróun á Flateyri. Verkefnisstjórinn, sem staðsettur yrði á Flateyri,
verði fjármagnaður að hálfu leyti með sérstöku framlagi frá ríkissjóði. Um væri að ræða
þróunarverkefni til þriggja ára. Verkefnið miðaði að því að þróa og útfæra
nýsköpunarverkefni á Flateyri, leita stuðnings í samkeppnis- og nýsköpunarsjóði og huga
að nýtingu húsnæðis í því skyni. Verkefnisstjóri hafi jafnframt umboð til að fylgja
tillögum starfshóps um málefni Flateyrar eftir og eftir atvikum setja fram tillögur til
stjórnvalda um málefni Flateyrar. Byggðastofnun yrði verkefninu til ráðgjafar og horft
yrði til reynslunnar og aðferðarfræði verkefnisins Brothættar byggðir. Brýnt er að
verkefni hefjist sem fyrst.“

Fjármögnun yrði 20 milljóna króna framlag ríkissjóðs á ári í þrjú ár og mótframlag frá sóknaráætlun svæðisins og Ísafjarðarbæjar eins og efni standa til.

Sex manna verkefnisstjórn

Fyrir síðasta fund bæjarráðs Ísafjarðarbæjar var lögð tillaga bæjarritara um að skipuð
verði verkefnastjórn fyrir framangreint verkefni sem byrji á því að vinna að því með
ábyrgðaraðilum að verkefnið verði fjármagnað og verkefnastjóri ráðinn. Verkefnastjórnin verði skipuð sex fulltrúum, tveir fulltrúar  Vestfjarðastofu, tveir fulltrúar Hverfisráðs Önundarfjarðar og loks skipi Ísafjarðarbær tvo fulltrúa.

Verkefnastjórnin mun í samstarfi við Vestfjarðarstofu skilgreina hlutverk verkefnastjórnar og verkefnastjóra. Verkefnastjóri skal vera með vinnuaðstöðu á Flateyri.

Bæjarráðið fól bæjarstjóra að vinna málið áfram.

DEILA