Flateyri: 25 m.kr. til heilsugæslusels

Í skýrslu starfshóps sem skipaður var af forsætisráðherra, fjármála- og efnahagsráðherra og samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra til að móta tillögur um aðgerðir til að treysta atvinnulíf og búsetu á Flateyri í kjölfar snjóflóðanna þann 14. janúar er fjallað um skipulag og viðbúnað heilbrigðisþjónustu á Flateyri.

HVEST lokaði á Flateyri snemma árs 2019

Fram kemur í skýrslunni að Heilbrigðisstofnun Vestfjarða hafi enduropnað heilsugæslusel á Flateyri þann 5. febrúar, en selið hafði verið lokað frá því snemma árs 2019.

Einnig segir að stofnunin hefur komið upp grunnbúnaði, bráðatösku með lyfjum og öðrum búnaði, sem geymd verður á öruggum stað en aðgengilegur fagfólki. Stofnunin hefur ráðið sálfræðing í 30% stöðu sem verður með Flateyri sem forgangsmál.

Þessi lýsing dregur fram þá fáheyrðu stöðu að Heilbrigðisstofnun Vestfjarða var ekki með neinn viðbúnað í Flateyri og það hafði verið svo í nærfellt eitt ár. Ekkert húsnæði, enginn búnaður til lækninga og  enginn starfsmaður. Það hafa ekki fengist skýringar á því hvers vegna svona var í pottinn búið á stað sem lokast landleiðina í óveðri.

Gagnrýni starfshópsins

Skipulag heilbrigðisþjónustunnar er gagnrýnt óbeint í skýrslunni. Þar segir :

„Ábendingar um veikleika komu fram varðandi þjónustu, skipulag, viðveru og
búnað Heilbrigðisstofnunar Vestfjarða sem var til staðar á Flateyri þegar
snjóflóðið skall á. Nauðsynleg lyf voru t.d. ekki til staðar. Heilsugæsluseli var
lokað á Flateyri fyrri hluta árs 2019 vegna þess að ekki var tiltækt fullnægjandi
húsnæði og takmarkaðir fjármunir til að ráðast í endurbætur.

Heilbrigðisstofnun Vestfjarða hefur farið yfir alla þá þætti sem varða þjónustu
á staðnum og aðstöðu og viðbúnað allan. Eins þarf að yfirfara áfallahjálp og
meta þörf fyrir breytingar sem leiðir til bættrar þjónustu og eftirfylgni. Meðal
annars þjálfun vettvangsliða, skoða tækifæri í fjarheilbrigðisþjónustu og
geðheilbrigðisteymi“

 

Tillaga um heilsugæslusel:

Starfshópurinn leggur til eftirfarandi:

1. Komið verði upp og tekið í notkun heilsugæslusel eða sambærilegri aðstöðu
á Flateyri.
2. Geðheilbrigðis- og áfallateymi verði komið á fót sem standi til boða öllum
íbúum í umdæmi Heilbrigðisstofnunar Vestfjarða, sem jafnframt hafi sérstaka
færni til að takast á við liðveislu í áföllum á borð við snjóflóðin.
3. Áætlun sett verði fram um aukna þjónustu og viðbúnað Heilbrigðisstofnunar
Vestfjarða á Flateyri – og hún kynnt íbúum og sveitarstjórn.

Lagt er til að ríkissjóður leggi fram 25 milljónir króna á þessu ári til þess að hrinda tillögunni í framkvæmd.