Fiskeldi: Stærsti janúarmánuður frá upphafi

Útflutningsverðmæti eldisafurða nam 2.557 milljónum króna í janúar og hefur aldrei verið meira í janúarmánuði. Þetta er um 6% aukning í krónum talið frá janúar í fyrra þegar verðmæti afurðanna nám 2.414 milljónum króna.
Á föstu gengi er aukningin aðeins minni, eða tæp 5%, þar sem gengi krónunnar var rúmlega 1% lægra nú í janúar en í sama mánuði í fyrra.
Í tonnum talið var aukningin þó nokkuð minni, eða tæp 2%. Þetta sést í tölum sem Hagstofan hefur birt.

Að þessu sinni munar mestu um aukningu á útflutningsverðmæti silungs, en verðmæti hans í janúar nam 604 milljónum króna samanborið við 438 milljónir í sama mánuði í fyrra.
Það er 38% aukning í krónum talið á milli ára. Er hér aðallega um bleikju að ræða, en framleiðsla á henni hefur stóraukist undanfarin ár.