Fimmtán aðgerðir til að treysta búsetu og atvinnulíf á Flateyri

Forsætisráðherra, fjármála- og efnahagsráðherra og samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra skipuðu þann 24. janúar sl. starfshóp til að móta tillögur um aðgerðir til að treysta atvinnulíf og búsetu á Flateyri við Önundarfjörð í kjölfar snjóflóðanna þann 14. janúar sl.

Starfshópinn skipuðu Teitur Björn Einarsson lögmaður, fulltrúi fjármála- og efnahagsráðherra, formaður, Lísa Kristjánsdóttir aðstoðarmaður forsætisráðherra, Hermann Sæmundsson skrifstofustjóri í samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytinu, Þórdís Sif Sigurðardóttir bæjarstjóri Ísafjarðarbæjar og Steinunn Guðný Einarsdóttir varabæjarfulltrúi í bæjarstjórn Ísafjarðarbæjar.

Starfshópurinn hefur nú lagt fram greinagerð þar sem helstu áhersluatriði koma fram og þar er að finna eftirfarandi tillögur:

Komið verði á fót byggðaþróunarverkefni í sjávarútvegi í samstarfi atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytisins, Ísafjarðarbæjar og Byggðastofnunar. Verkefnið miði að því að auka svigrúm og ráðstöfun á nýtingu aflaheimilda í því skyni að aukna fjölbreytni atvinnulífs á Flateyri, t.a.m. á sviði fiskeldis, og styrkja þar með byggðafestu. Verkefnið væri til þriggja til sex ára.

Lagt er til að Byggðastofnun stofni sérstakan lánaflokk á hagstæðum kjörum til framkvæmda og viðhalds á atvinnuhúsnæði í byggðarlögum sem glíma við afleiðingar náttúruhamfara og þar sem ætla má að markaðsbrestur hamli uppbyggingu atvinnuhúsnæðis og fjármögnun þess. Sérstakri áhættu af slíkum lánaflokki verði mætt með varasjóðsframlagi úr ríkissjóði eftir því sem við á.

Ný varaaflsstöð (eftir atvikum færanleg og sjálfvirk) verði sett upp á Flateyri.

Settur verði á fót starfshópur á vegum félagsmálaráðuneytis og Ísafjarðarbæjar sem kortleggi stöðuna á Flateyri, m.a. með hliðsjón af húsnæðisþörf Lýðskólans, og komi með tillögur að útbótum.

Að komið verði á fót tilraunaverkefni um almenningssamgöngur milli Flateyrar og Ísafjarðar sem byggði á aðgerð A.10 í byggðaáætlun.

Að auki er fjalla um eflingu Lýðskólans, ráðningu verkefnisstjóra á vegum Vestfjarðastofu í samstarfi við Ísafjarðarbæ fyrir nýsköpun og atvinnuþróun á Flateyri, björgunarbát fyrir Flateyri, eflingu heilsugæslu, frekari snjóflóðavörnum og í ljósi alvarlegrar stöðu Flateyrar eru viðkomandi stjórnvöld hvött til að skoða möguleikann á því að 2500 tonna fiskeldi í Önundarfirði verði sett í forgang hjá viðeigandi stofnunum.

DEILA