Fasteignaskattur hæstur á Ísafirði og lægstur á Patreksfirði

Í krónutölum er fasteignaskattur hæstur á Ísafirði, 210 þ.kr. á ári eða 134% hærri en á Patreksfirði, en þar er fasteignaskatturinn lægstur með 88 þ.kr. á ári.

Fasteignaskattur er í öllum tilfellum reiknaður sem % af heildarmati eignarinnar og er það hvert og eitt sveitarfélag sem ákveður þessa % innan ákveðins lagaramma. Á Ísafirði er álagningin 0,625% af heildarmati sem og í Bolungarvík. Á Patreksfirði er álagningin 0,45%.

Athyglisvert er að fasteignaskatturinn er um 120 þúsund krónur í Grafarholtinu í Reykjavík eða um 80 þúsund krónum lægri fjárhæð þrátt fyrir að fasteignamatið í Grafarholtinu sé tvöfalt hærra en á Ísafirði.

Þetta kemur fram í skýrslu sem Byggðastofnun hefur birt um fasteignamat og fasteignagjöld 2020.

Byggðastofnun fékk Þjóðskrá Íslands til að reikna út fasteignamat á sömu viðmiðunarfasteigninni á 26 þéttbýlisstöðum á landinu. Fasteignagjöld eru reiknuð út af Byggðastofnun samkvæmt álagningarreglum ársins 2020 eins og þær eru í hverju
sveitarfélagi , út frá því fasteignamati sem Þjóðskrá reiknar og gildir frá 31. desember 2019.

Þau þrjú sveitarfélög þar sem fasteiganskatturinn er lægstur í krónutölu eru öll á Vestfjörðum. Það er í Bolungavík, á Hólmavík og á Patreksfirði.
.