Enginn vill sameinast Reykjavík

Rétt ríflega helmingur íbúa á höfuðborgarsvæðinu (51,1%), sem eru 18 ára eða eldri, vill ekki að sveitarfélögin á höfuðborgarsvæðinu sameinist í eitt sveitarfélag. Á bilinu 55-56% Reykvíkinga vilja sameiningu, þótt sú skoðun sé missterk eftir hverfum, en aðeins 40% íbúa annarra sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu að meðaltali. Meirihluti íbúa í hverju sveitarfélagi að Reykjavík undanskildu er á móti þessari sameiningu.

Um 60% karla vilja sameiningu sveitarfélaganna en aðeins 37% kvenna.  Þá eykst vilji til sameiningar sveitarfélaga mikið með aldri, þannig að til dæmis vilja færri en 30% íbúa sem eru 18-29 ára sameiningu, en yfir 60% íbúa sem eru 50 ára eða eldri.

Þetta kemru fram í könnun sem Maskína gerði fyrr í þessum mánuði.

Kjósendur Viðreisnar (73,8%) og Framsóknarflokksins (69,4%) vilja fremur en aðrir að sveitarfélögin sameinist, en kjósendur Sjálfstæðisflokksins síst (37,1%) og kjósendur Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs næst síst (44,5%). Meirihluti kjósenda annarra flokka vill umrædda sameiningu.

Súlan til vinstri er niðurstaða sambærilegrar könnunar Maskínu frá 2018 og súlan til hægri er niðurstaða þessarar könnunar. Mestur stuðningur er við enga sameiningu 30,5%. Næst mestan stuðning fær sameining 6 sveitarfélaga 26,8%. Stuðningur við aðra möguleika er hverfandi.

Svarendur voru 970 talsins, koma úr Þjóðgátt Maskínu, sem er þjóðhópur fólks (e. panel) sem er dreginn með tilviljun úr Þjóðskrá og svarar á netinu. Svarendur eru 18 ára og eldri af höfuðborgarsvæðinu. Gögnin eru vigtuð með tilliti til kyns, aldurs og búsetu samkvæmt Þjóðskrá og endurspegla því íbúa höfuðborgarsvæðisins á umræddum aldri prýðilega. Könnunin fór fram dagana 3. til 12. mars 2020.