Eitt stykki loðnuvertíð í vaskinn

Áætlað er að meðal loðnuvertið geti gefið af sér um 14 milljarða króna. Verði ekkert af henni kemur það illa niður á þeim verstöðum sem unnið hafa loðnu svo og þjóðinni allri. Eins er hætta á að markaðir tapist vegna þess að fái ekki japanskir neytendur loðnuna sína er hætta á að þeir snúi sér að öðrum fiski og gleymi loðnunni. Nú verður heldur ekki leyfð loðnuveiði í Barentshafi svo Japansmarkaður sveltur alveg.

Ekki hefur gengið þrautalaust að finna loðnu á Íslandsmiðum þetta árið. Fyrsti leiðangur var farinn 13-25. janúar og þá mældust 64 þúsund tonn. Loðnan var þá mest NA af landinu.
Menn sögðu að loðnan hefði breytt göngumynstri sínu vegna aukins sjávarhita, væri nú nær Grænlandi en áður. Nokkuð merkilegt að halda slíku fram vegna þess að mælingar sýna að sjór hefur kólnað við Grímsey frá 2003.

Næst var farið í snemma í febrúar og mældust þá 250 þús. tonn aðallega út af Norðurlandi. Það gaf bjartsýni og því var farið í þriðja leiðangurinn 16-20. febrúar en þá mældist enn minna, sem sýnir hve mælkingarnar eru ónákvæmar og hafið stórt.
Þeir á Hafró viðhafa þá reglu að minnst 400 þús. tonn þurfa að mælast svo hægt sé að gefa út kvóta. Þessi síðasta leit eða mæling fór öll fram fyrir Norðurlandi og inni á fjörðum og flóum fyrir norðan.

Nokkuð merkilegt því þá er loðnan venjulega komin suður fyrir land. Enda, þremur dögum seina verða skip vör við loðnutorfur við Papey.
Eftir að Hafró hafði metið stærð þeirrar göngu þótti hún ekki nógu stór til að gefa út veiðiheimildir.

Myndin sýnir leiðarlínur loðnuleitarskipa 16-20. febrúar. Þrem dögum seinna fundust svo nokkrar góðar torfur við Papey, en ekkert hafði verið leitað sunnan Gerpis, þó menn hefðu átt að vita að á þessum tíma væri loðnan að öllu jöfnu á leið suður fyrir land.

 

Í tilefni þessa er rétt að fara yfir lífsferill hennar eins og hann hefur verið í stórum dráttum:

Hún hrygnir í febrúar-mars með allri suður ströndinni, vestur um til Breiðafjarðar og stundum enn norðar. Loðnan, sem gengur á hrygningarstöðvarnar er að koma þangað í fyrsta sinn, hefur aðeins komið þar áður sem hrogn í búk móður sinnar. Eitt af undrum náttúrunnar.

Þó loðnan sé smá eru um 25-40 þúsund hrogn í hverri hrygni, miðað við 5-10 þús. í laxi t.d. Hún límir hrognin við botninn og þau klekjast á nokkrum vikum. Þau leita upp í sjó og lifa þar á svifi í 1-2 mánuði og berast á meðan með straumi réttsælis í kring um landið. Seiðin lifa á grunnsævi fyrstu tvö sumrin. Þá ganga þau norður, burtu af landgrunninu, í ætisleit. Þá hverfa þau af matarborði þorsksins og það er ekki fyrr en þau koma til baka rúmu ári síðar og ganga til hrygningar að hann sér þau aftur, og þá aðallega við austur- og suðurströndina.

Það er því mikið til í þeirri fullyrðingu að með því að veiða meira af þorski getum við líka veitt meiri loðnu. Margir halda að flottrollsveiðar eigi þátt í hve lítið er af loðnu nú sem stendur. En slíkar veiðar hafa auðvitað engin áhrif á hve mikið finnst af loðnu áður en veiðar hefjast. Loðnan drepst öll eftir hrygningu svo ekki er unnt að geyma hana milli vertíða, frekar en laxinn í ánum, sem drepst 95% eftir hrygningu.

Jón Kristjánsson, fiskifræðingur

Viðauki

Gönguleiðir loðnunnar fyrir 2001. Hrygningarsvæðið er rautt, blátt er uppeldissvæði ungloðnu og grænt er uppeldissvæði fullorðnu loðnunnar. Grænar örvar sýna gönguleiðir loðnu í fæðuleit, bláar sýna hana á heimleiðinni. Bláu örvarnar breytast í rauðar þegar hún gengur austur með norðurströndinni (Hjálmar Vilhjálmsson, 2002).

Loðnan er oft aðalfæða þorsksins en hann lifir aðallega á 1 og 2 ára loðnu og stjórnar því hve margar komast í ætisgönguna norður í Dumbshaf.

Það er því þorskurinn, sem með áti sínu á ungloðnu skammtar hversu mikið gengur til hrygningar og þar með veiðistofninn. Sé mikið af þorski gengur hann nærri ungloðnunni og komandi loðnuvertíð verður léleg.

Það er því mikið til í þeirri fullyrðingu að með því að veiða meira af þorski getum við líka

Hvar er hún þessi hlýnun sjávar?

„Hlýnun sjávar“ er oft notuð til skýringar á ýmsum fyrirbrigðun eins og göngum og útbreiðslu fiska. Sérfræðingur Hafró í loðnumálum hefur sagt að loðnan hefði breytt göngumynstri og hrygningartíma vegna hækkandi sjávarhita og oft er breytt útbreiðsla og gönguhegðun fiska skýrð með hlýnun sjávar. Allir virðast ganga út frá því að hafið í kring um Ísland sé að hlýna. En er það svo? Til þess að svara þessu verður að lesa af hitamælum og skoða tiltæk gögn. Lítum á nokkrar hitatölur, sem finna má á vefsíðu Hafró (sjora.hafro.is).

 

 

Hér sá mælikvarð sem oftast er notaður um ástand sjávar við Ísland, en það er hitastig að vori á 50 m dýpi á Siglufjarðarsniði, rauða línan. Ekki er að sjá að hiti nú sé eitthvað meiri en hann var á góðu loðnuárunum 1980-90. Þarna sést greinilaga skellurinn sem varð 1965, sem olli því að síldin hvarf frá Norðurlandi.

 

 

Hér er hitamæling frá dufli við Grímsey en hún sýnir smávægilega hlýnun frá 1987-2003 en þá fer að kólna og kólnunin heldur áffram til 2020

 

 


Vestmannaeyjaduflið
sýnir hitalækkun s.l. 10 ár

 

Hér eru svo hitamælingar 1990-2018 úr Stofnmælingaleiðöngrum Hafró sem farnir eru í mars ár hvert. Þar má sjá að hiti við botn er að hækka fram að 2003 en síðan hefur hann farið
lækkandi eða staðið í stað. Sammerkt þessum gögnum er að vandéð er að staðhæfingar um að hafið við Ísland sé að hlýna fái staðist.
Efsta línan sú rauða, eru S mið, gula línan NV mið, græna línan SA mið og sú blá er N mið.