Djúpið : Hafrannsóknarstofnun játar ósigur

Fyrir þremur árum tóku stjórnendur Hafrannsóknarstofnunar þá umdeildu ákvörðun að loka Ísafjarðardjúpi fyrir laxeldi í sjó. Rökin fyrir lokuninni voru þau að annars yrði of mikil hætta á því að laxastofnar í þremur ám Laugardalsá, Langadalsá og Hvannadalsá yrðu fyrir blöndun við eldislaxa, sem kynnu að sleppa úr kvíunum.

Fyrir lá að unnt er að rækta 30 þúsund tonn í Djúpinu samkvæmt þeim ströngu reglum sem um áhrif eldisins á umhverfið gilda. Burðarþolsmatinu er ætlað að meta afrakstursgetu auðlindarinnar og er þar um að ræða mat á þoli til að taka á móti auknu lífrænu álagi án þess að það hafi óæskileg áhrif á lífríkið.

Áform um sjókvíaeldi þurfa auk þess að fara í gegnum umhverfismat og áhrifin á umhverfið verða að vera innan tilgreindra marka. Er það skoðað vel og vandlega og ýmsir mikilvægir þættir svo sem mengun teknir nákvæmlega út.

Framgangur laxeldis í Djúpinu var stöðvaður af öðrum ástæðum, þeim að Hafrannsóknarstofnun mat  of mikla hætta á blöndun milli eldislax og laxastofnanna í ánum þremur. Rökin voru að villtu stofnarnir séu verðmætir og erfðablöndunin spilli þeim. Í því felist tjón sem verði ekki bætt.

Þessi ákvörðun Hafrannsóknarstofnunar hefur verið gagnrýnd einkum vegna þess að stofnunin reiknaði áhættuna upp með því að áætla forsendur í stað þess að gera beinar athuganir. Aðgerðir eiga að byggjast á raunverulegum athugunum, á staðreyndum en ekki huglægu mati. Allra síst á  að fela mönnum sem eru á móti laxeldi að velja sér forsendur og velja sér svo tölur í forsendurnar. Það er einmitt helsta gagnrýnisatriðið á áhættumat Hafrannsóknarstofnunar. Það þykir ekki vísindalegt.

Forsendur og veruleikinn aðskilinn

Aðalforsendan sem stofnunin gaf sér 2017 var að þröskuldur ásættanlegrar innblöndunar eldislaxa í náttúrulegar laxveiðiár miðaðist við 4%. Það var þetta atriði sem varð tilefni laxeldisbannsins í Djúpinu. Hvernig talan 4% kemur til er óljóst.  Aðeins segir að hún sé sett með hliðsjón af erlendum heimildum og náttúrulegu flakki villtra fiska milli áa.  Mörkin eru sem sé ekki byggð á beinum athugunum eða reynslutölum. Síðan reiknaði Hafró út að ef 30 þúsund tonna eldið yrði í Djúpinu myndi hlutfallið, að gefnum ýmsum forsendum byggðum á mistraustum grunni, fara upp í 7% fyrir árnar þrjár.

Þesis vinnubrögð standa tæplega undir því að vera vísindi.  Vísindin grundvallast á athugunum, beinum mælingum og rannsóknum á viðfangsefninu og ályktunum sem dregnar af þeim eftir ströngum reglum. Hafrannsóknarstofnunin velur sér forsendur til að reikna út frá og velur sér líka tölur til að setja í reiknilíkanið. Það eru takmörk fyrir því hvað hægt er að færa athuganir í Noregi yfir á aðstæður í Djúpinu án frekari skoðunar.

Hafrannsóknarstofnun undir stjórn manns, sem áratugum saman var í nánum fjárhagslegum samskiptum við veiðiréttarhafa, sem berjast hatrammlega gegn sjókvíaeldi,  féll á prófinu.

Aðeins leyft 1/3 af burðarþoli þrátt fyrir uppfyllt skilyrði

Í ráðgjöf stofnunarinnar sem kynnt var í vikunni er fallið frá banni við laxeldi í Djúpinu að hluta til. Stofnunin leggur nú til að heimila 12 þúsund tonna lífmassa. það samsvarar um 9.500 tonna ársframleiðslu miðað við forsendur stofnunarinnar. Það verður því heimilt að nýta þriðjunginn af burðarþoli svæðisins en áfram yrði bannað að nýta um 2/3.

Stofnunin hefur yfirfarið forsendur sínar frá 2017 og kemst að þeirra niðurstöðu að færri strokulaxar muni ganga upp í árnar en áður var talið. Svokallað endurkomuhlutfall lækkar  verulega, fyrir snemmbúið strok lækkar það úr 1,85% í 1,3% og fyrir síðbúið strok úr 3,3% í 1,1%. Þessi breyting á stærstan þátt í því að reiknað innblöndunarhlutfall lækkar úr 7% og fer niður fyrir 4% fyrir allar árnar þrjár.

Nú ber svo einkennilega við að stofnunin leggur ekki til að leyfa eldið að fullu burðarþolsmati heldur aðeins að 1/3 hluta. En þegar reiknað hlutfall fór yfir 4% þá var ákvörðun Hafrannsóknarstofnunar að banna allt. Hvers vegna er ekki samræmi í þessu?

Við því fást engin svör. Í ráðgjöf stofnunarinnar er enginn rökstuðningur fyrir áframhaldandi banni á 2/3 hluta af burðarþolsmatinu.

Það einkennilega er að í kynningunni er lagt til að áfram verður lokað fyrir laxeldi innan línu úr Ögurnesi í Æðey og um Hólmasund. Engin skýring er gefin á þessari tilllögu. Fyrst metin áhætta á innblöndun er reiknuð innan við 4%, tala sem gildir fyrir allt Djúpið, hvers vegna er ekki tekið mark á henni? Og svo má spyrja um ákvörðinuna frá 2017. Af hverju var þá lokað fyrir laxeldi um allt Djúp? Rökrétt miðað við tillöguna nú hefði verið að leyfa laxeldið utan þessarar línu strax 2017. Hvers vegna var það ekki gert?

Hagsmunagæsla og pólitík

Hvar eru vísindin í þessari ráðgjöf Hafrannsóknarstofnunar ? Forsvarsmenn Háafells hf hafa einmitt hnotið um  þessa skrýtnu tillögu um áframhaldandi lokun Djúpsins innan við Ögurnes og benda á að með henni sé laxeldi bannað mun lengra frá árósum Langadalsár en almennt er mælt fyrir um í lögum og reglum. Hvers vegna er það og á hvaða lagalegum forsendum ætla stjórnvöld að bygga slíkt bann?  Eiga þessi nýju fjarlægðarmörk bara að eiga við um Langadalsá en ekki aðrar ár á landinu?

Stutta svarið við þessum mótsögnum í ráðgjöf Hafrannsóknarstofnunar bæði nú og 2017 er að hagsmunagæsla og pólitík ræður ákvörðunum Hafrannsóknarstofnunar en ekki vísindastarfið. Vellauðugir leigutakar Langadalsár og Hvannadalsár hafa áhrif, að ekki sé talað um hinn breska auðkýfing sem er að leggja undir sig laxveiðihlunnindi á Norðausturlandi. Einstaklega ómálefnaleg og á köflum óþverraleg skrif á vegum The Icelandic Wildlife Fund í byrjun ársins gegn laxeldi í Ísafjarðardjúpinu vöktu athygli. Á bak við samtökin standa milljarðamæringar.

Kynning og ráðgjöf Hafrannsóknarstofnunar nú ber öll merki þess að engin vísindaleg rök eru fyrir því að standa gegn laxeldinu í Ísafjarðardjúpi og stofnunin varð að beygja sig undir þá staðreynd.

Vestfirðingar höfðu fullan málefnalegan sigur og Hafrannsóknarstofnun varð að játa sig sigraða. Bannið frá 2017 var alla tíð ómálefnalegt og óvísindalegt. Það mun verða Hafrannsóknarstofnun til ævarandi háðungar og er mikill áfellisdómur yfir vísindastarfi í stofnuninni.

En stofnunin streitist enn á móti með Ögurnes-Æðeyjar-Hólmasunds línunni sem hún ráðleggur. Það er þjónkun við  við sérhagsmunina og framlag vísindamanna stofnunarinnar til stjórnmála en ekki til vísinda.

Nú fer ráðgjöfin í  í formlegt ferli. Þá er að reka flóttann og fella Æðeyjarlínuna með vísindalegum og efnahagslegum rökum.

99 milljónir króna hver veiddur lax

Í áhættumatinu frá 2017 rekur Hafrannsóknarstofnun efnahagslegu verðmæti af nýtingu laxveiðihlunnindanna og þar stendur :

„Bein verðmæti veiðiréttinda í íslenskum laxveiðiám eru hins vegar metin á 3-4 milljarðar króna að núvirði.“ Síðan er lagt mat á óbeinu áhrifin og þau reiknuð upp á 15-20 milljarða króna. Með öðrum orðum þá er verið að réttlæta hagsmuni stangveiðinnar með skírskotun til efnahagslegrar þýðingar fyrir þjóðarbúið.

Það er vissulega eðlilegt að leggja efnahagslegt mat á málið. Það vantar hins vegar hjá Hafrannsóknarstofnun að meta áhrifin af laxeldinu.  Ef því er haldið fram að laxeldið skaði stangveiðina þá er nauðsynlegt að hafa mat af laxeldinu og bera svo saman.

Útflutningstekjur af laxeldinu eru gríðarlegar. Þrjátíu þúsund tonna laxeldi í Ísafjarðardjúpi gefa um 30 milljarða króna. Þetta eru beinu tekjurnar og svo á eftir að meta óbeinu áhrifin. Það verður ekki gert hér en augljóslega eru beinu tekjurnar af laxeldi í Djúpinu einu  um sjö sinnum meiri en af stangveiðinni á landinu öllu. Það blasir við.

Tekjur af nýtingu laxveiðiánna þriggja í Djúpinu eru um 25 milljónir króna miðað við upplýsingar frá 2016 og 2017. Leigutakar ánna nú hafa hins vegar ekki viljað svara því hverjar tekjurnar eru nú.

Nú ráðleggur Hafrannsóknarstofnun að leyfa 1/3 af burðarþoli um 9.500 tonn. Þannig að stofnunin vill banna 20.500 tonna framleiðslu. Útflutningstekjur af því eru um 20,5 milljarðar króna – á hverju ári. Því vill stofnunin fórna til að vernda  25 milljónir króna.

Það er svo önnur saga að laxeldið mun ekki skaða stangveiðina miðað við stöðu mála og verndaraðgerðir en í augum sérfræðinga Hafrannsóknarstofnunar eru þeir að vernda 25 milljón króna hagsmuni.

Laxveiðin í Djúpinu á síðasta ári var samanlagt aðeins 207 laxar.  Það að fórna 20,5 milljörðum króna fyrir 207 laxa þýðir að hver lax er verðmetinn á 99 milljónir króna. Eru auðkýfingarnir sem leigja árnar tilbúnir að borga okkur Vestfirðingum 99 milljónir króna fyrir hvern veiddan lax?

900 manns

KMPG vann 2017 fyrir Fjórðungssamband Vestfirðinga mat á áhrifum 30 þúsund tonna lífmassa með 25 þúsund tonna framleiðslu í Djúpinu. Niðurstöðurnar voru að bein störf yrðu 260, óbein 150 og um 900 íbúa fjölgun yrði við Djúp. Útflutningsverðmætin yrðu 23 milljarðar  króna.

Stangveiðin gefur lítið sem ekkert og engin störf fylgja henni.

Kostirnir eru skýrir.

-k

 

 

 

DEILA