Covid-19 aðgerðir: íslensk garðyrkja efld

Meðal aðgerða sem sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra hefur kynnt til þess að breðast við afleiðingum Covid-19 faraldursins er að efla íslenska garðyrkju til muna með auknum fjárveitingum.

Í fréttatilkynningu ráðuneytisins er greint frá því að nú standi yfir samningaviðræður stjórnvalda og bænda um endurskoðun búvörusamnings um starfsskilyrði garðyrkjuræktar. Þar er gert ráð fyrir að íslensk garðyrkja verði efld til muna með auknum fjárveitingum og með tilheyrandi fjárfestingum í greininni. Aðgerðin er m.a. fjármögnuð með fjárfestingaátaki ríkisstjórnarinnar á þessu ári.

Aukin framleiðsla á íslensku grænmeti er forsenda þess að íslenskir garðyrkjubændur nái að halda í við þá þróun sem aukin neysla grænmetis hefur í för með sér og nái að halda við og auka markaðshlutdeild íslensks grænmetis segir í tilkynningunni.

Framkvæmdanefnd búvörusamninga verður falið að leita leiða til að færa til fjármuni í samræmi við gildandi búvörusamninga til að koma sérstaklega til móts við innlenda matvælaframleiðendur.

Í samvinnu við Bændasmtök Íslands  mun ráðuneytið útvega bændum fjölþætta ráðgjöf á sviði rekstrar og nýsköpunar í því skyni að vinna úr núverandi stöðu vegna Covid-19 og geta sótt fram að því loknu.

Þá er ein af aðgerðunum til tilkynntar hafa verið sú að atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið mun í samstarfi við heilbrigðisráðuneytið gera ráðstafanir til að heimila með skilyrðum ræktun iðnaðarhamps hér á landi til að auka verðmætasköpun í íslenskum landbúnaði.