Covi19: engin smit á Vestfjörðum

Fram kemur á vefsíðu Heilbrigðisstofnunar Vestfjarða að gripið hefur verið til margvíslegra aðgerða til að bæði hindra dreifingu Covid-veirunnar og undirbúa viðbragð við fyrsta smiti. Enn sem komið er hefur enginn í umdæminu greinst með smit. Heilbrigðisstofnunin setti í gær heimsóknarbann til að vernda sjúklinga.

Ísafjarðarbær birti í gær, eftir að fyrir lá ákvörðum heilbrigðisráðherra um samkomubann,  viðbragðsáætlun og mun uppfæra upplýsingar á heimasíðu sveitarfélagsins jafnóðum og þær berast. Þannig á t.d. eftir að útfæra nánar með hvaða hætti starfsemi skóla og leikskóla verður. Upplýst verður um það um leið og útfærslan liggur fyrir.

Nýjustu tölur um smit og sóttkví verður hægt að sjá á nýjum vef embættis landlæknis og almannavarnardeildar ríkislögreglustjóra, covid.is.

Í gærkvöldi höfðu engin smit verið greind á Vestfjörðum en 10 manns voru í sóttkví.

Af 138 smitum voru 133 á höfuðborgarsvæðinu, 4 á Suðurlandi og 1 óstaðsett.