Byggðastofnun: lægst fasteignamat í Bolungavík

Fasteignamat viðmiðunarhúss er lægst í Bolungavík fjórða árið í röð. Þar er matið 16,6 milljónir króna. Hæst er það í Þingholtunum í Reykjavík 103 milljónir króna. Í fjórum byggðarlögum er fasteignamatið lægra en 20 milljónir króna og eru þrjú af þeim á Vestfjörðum. Það eru auk Bolungavíkur, Hólmavík og Patreksfjörður.

Byggðastofnun fékk Þjóðskrá Íslands til að reikna út fasteignamat á sömu viðmiðunarfasteigninni á 26 þéttbýlisstöðum á landinu.
Til að forðast skekkjur er útreikningur fenginn staðfestur hjá hverju sveitarfélagi fyrir sig.
Viðmiðunareignin er einbýlishús sem er 161,1 fermetrar að grunnfleti. Stærð lóðar er 808 fermetrar og rúmmál eignar er 476 rúmmetrar.

Heildarmat, sem er samanlagt verðmat fasteignar og lóðar, er mjög mismunandi eftir því hvar á landinu fasteignin er. Fjórða árið í röð er Bolungarvík með lægsta heildarmatið, var 16,1 m.kr. kr. í lok árs 2018 en er í lok árs 2019 16,6 m.kr. Öll árin hefur matið verið áberandi hæst í Suður-Þingholtunum í Reykjavík,  nú rúmar 103 m.kr. Á meðfylgjandi mynd eru Suður-Þingholtin ekki inni, til að auðvelda samanburð á milli annarra matshverfa. Af þeim þéttbýlisstöðum sem skoðaðir voru utan höfuðborgarsvæðisins, hefur matið verið hæst á Akureyri undanfarin ár en nú er Akranes með hærra mat eða 55,7 m.kr. miðað við
54,4 m.kr. á Akureyri.

 

Ísafjörður hækkaði mest

Fasteignamatið hækkað mest milli ára á Ísafirði. Í krónutölum hækkar matið mest í Úlfársdal í Reykjavík, um 10,7 m.kr. Heildarmat hefur hækkað hlutfallslega mest á Ísafirði á milli ára, eða um 23,17%. Á Akranesi hækkaði það um 23,15%. Á Húsavík hækkaði heildarmat á milli áranna 2017 – 2019 úr 22 m.kr. í 39,9 m.kr. Í ár lækkar það um 6% og er nú 37,5 m.kr. en líklegt er að þar sé að eiga sér stað leiðrétting á fasteignaverði í kjölfar verkloka á Bakka við Húsavík.

Lægsta heildarmatið er í Bolungarvík 16,6 m.kr. sem er 2,4 m.kr. lægra en á Seyðisfirði og 3,0 m.kr. lægra en á Patreksfirði. Í Bolungarvík hækkaði matið um 2,6% á milli ára.