Byggðakvóti í Súðavík : 239 tonn

Sveitarstjórn Súðavíkur hefur samþykkt sérreglur sem gilda eiga um byggðakvóta Súðavíkur og hafa reglurnar verið sendar til Atvinnuvegaráðuneytisins sem þarf að staðfesta þær.

Úthlutaður kvóti ársins er 120 tonn og auk þess bætast við ónýtt 119 tonn frá fyrra fiskveiðiári. Samtals eru 239 þorskígildistonn til úthlutunar. Áætlað verðmæti heimildanna miðað við meðalverð aflamarks frá áramótum skv. upplýsingum frá Fiskistofu eru um 60 milljónir króna.

Í skiptingu sveitarstjórnar er gert ráð fyrir að 65 þorskígildistonn renni til Icelandic Sea Angling vegna sjóstangveiða. Félagið þarf að haf agildan samning við vinnslufyrirtæki.

Íslandssaga/Norðureyri/Vestfirskur fá 65 tonn. Bjartmarz ehf útgerð fær 34 tonn  og má veiða þau á skipum sem skráð eru í Súðavík eigi síðar en 1. mars 2020. Auk þess þarf fyrirtækið að hafa gildan vinnslusamning.

Krókabátar skráðir í 1. júlí 2019 Súðavík fá samtals 75 tonn.

Í reglunum kemur fram að hver sá sem fær byggðakvóta skuli tryggja tonn á móti hverju tonni, öllum afla sé landað í Súðavík og að Íslandssaga  kaupi allan landaðan byggðakvóta ásamt mótframlagi.